Tilkynningar
Vefsíða LFÍ
LFÍ er nú komin með nýja vefsíðu, hér verða áríðandi tilkynningar ef slíkt kemur upp.

LFÍ á Facebook

Föstudagspistill
Fimmtudagur, október 18, 2018
Fimmtudagurinn 4. október var mikill hátíðisdagur hjá Lyfjafræðingafélagi Íslands og var tilefnið árangur samstarfs okkar (LFÍ) við Royal Pharmaceutical Society (RPS) en félögin tvö undirrituðu samstarfssamning 30. september 2015. Við fengum til okkar erlenda gesti, frá RPS og FIP (alþjóða samtök lyfjafræðinga) sem tóku þátt í hátíðardagskrá sem haldin var í Háskóla Íslands og síðan félagsfundi sem haldinn var í sal Lyfjafræðisafnsins um kvöldið. Í hátíðardagskránni var nýja náminu í klínískri lyfjafræði við Háskóla Íslands/Landspítala fagnað en það hófst haustið 2016 og byggir á samstarfi LFÍ og RPS. Samtals 6 lyfjafræðingar eru við nám í klínískri lyfjafræði og munu tveir fyrstu nemarnir ljúka náminu á næsta ári. Þar að auki hafa 11 lyfjafræðingar í LFÍ („first wave“ hópur) farið í gegnum mat hjá RPS, 5 lyfjafræðingar fengu afhenta viðurkenningu á þingi FIP í september s.l. og afhenti fulltrúi RPS, hinum lyfjafræðingunum úr hópnum viðurkenningu á hátíðardagskránni. Yfirskrift félagsfundarins um kvöldið var: „Mikilvægi starfsþróunar og þjálfunar fyrir lyfjafræðinga hvar sem þeir starfa". Lyfjafræðisafnið var opnað fyrir gesti kvöldsins meðan þeir gæddu sér á veitingum.
Mánudagur, maí 14, 2018
Lyfjafræðingafélag Íslands lýsir yfir eindregnum stuðningi við fyrirætlanir Meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C um að framleiða áhaldapakka til afhendingar fyrir einstaklinga sem neyta vímuefna í æð þeim að kostnaðarlausu. Ósk Meðferðarátaksins er að áhaldapakkar þessir verði afhentir í apótekum um allt land til að tryggja jafnan aðgang og stuðla að skaðaminnkun fyrir þennan hóp. Lyfjafræðingar sem starfa í apótekum eru einmitt sú heilbrigðisstétt sem almenningur hefur hvað greiðastan aðgang að og gegna því mikilvægu hlutverki hvað varðar fyrirbyggjandi aðgerðir af þessu tagi. Lyfjafræðingafélag Íslands fagnar þessu mikilvæga framtaki Meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C sem er mjög mikilvægt skref í forvörnum gegn erfiðum sjúkdómum hjá viðkvæmum hópi fólks. Lyfjafræðingafélag Íslands hvetur alla lyfjafræðinga til að leggja sitt af mörkum í þessu mikilvæga máli þannig að afhending áhaldapakka fyrir einstaklinga sem neyta vímuefna í æð verði tryggð á landsvísu. F.h. stjórnar Lyfjafræðingafélags Íslands Lóa María Magnúsdóttir, formaður LFÍ