Dagur lyfjafræðinnar var haldinn hátíðlegur 4. nóvember s.l. Í tilefni af 85 ára afmæli Lyfjafræðingafélags Íslands var Þorsteini Loftssyni prófessor veitt gullmerki félagsins fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu lyfjafræði og Ólafi Ólafssyni lyfjafræðingi veitt gullmerki félagsins fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu lyfjafræði á Íslandi og í þágu Lyfjafræðingafélags Íslands.
Lóa María Magnúsdóttir formaður LFÍ, Þorsteinn Loftsson og Hanna Lilja Guðleifsdóttir eiginkona Þorsteins
Lóa María Magnúsdóttir formaður LFÍ, Ólafur Ólafsson og Hlíf Þórarinsdóttir eiginkona Ólafs.
Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var fyrir Lyfjastofnun gefa til kynna að geymslu lyfja á íslenskum heimilum er víða ábótavant, að hvetja þurfi almenning til að skila fyrndum lyfjum til eyðingar í apótek og fræða um örugga geymslu lyfja á heimilum. Við þetta haldast í hendur tölur frá Eitrunarmiðstöð Landspítalans um fjölda fyrirspurna vegna lyfjaeitrana.
Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar finnst tölurnar sláandi og telur ástæðu til að bregðast við vandanum. „Það liggur fyrir að fyrirspurnum vegna lyfjaeitrana hefur ekki farið fækkandi undanfarin ár. Ef við horfum á þá staðreynd í samhengi við niðurstöður nýlegrar könnunar sem sýna að lyf eru ekki geymd við nægilega öruggar aðstæður á íslenskum heimilum er ljóst að vekja þarf fólk til umhugsunar.“
Lyfjastofnun fer af stað með átaksverkefnið Lyfjaskil – taktu til! 2. mars sem er ætlað að taka á þessum vanda með vitundarvakningu hjá almenningi.
Í tengslum við átaksverkefnið opnar Lyfjastofnun vefinn www.lyfjaskil.is þar sem meðal annars verður hægt að lesa sér til um ráð varðandi geymslu lyfja á heimilum og hvernig á að bera sig að við tiltekt í lyfjaskápnum. Átakið stendur yfir dagana 2.-10. mars 2017.
Verkefnið er unnið í samstarfi við eftirtalda aðila og hefur hlotið styrk frá Lyfjafræðingafélagi Íslands og velferðarráðuneyti.
Samstarfsaðilar Lyfjaskil – taktu til!
Eitrunarmiðstöð Landspítalans
Embætti landlæknis
Félag atvinnurekenda
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Kolbeinn Guðmundsson, barnalæknir
Lyfjafræðingafélag Íslands
Lyfsalahópur Samtaka verslunar og þjónustu
Sjúkrahúsapótek Landspítalans
Velferðarráðuneyti
Öll apótek á Íslandi
Á 89. fundi norrænna lyfjafræðingafélaga (NFU) sem haldinn var í Osló dagana 14. til 16. ágúst var undirrituð yfirlýsing varðandi hlutverk lyfjafræðinga í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.
Á myndinni má sjá formenn norrænu félaganna undirrita yfirlýsinguna, frá vinstri: Kristina Frithofsson (Svíþjóð), Tove Ytterbø (Noregi), Lóa María Magnúsdóttir (Íslandi), Kirst Kvarnström (Finnlandi) og Rikke Løvig Simonsen (Danmörku).
Lyfjafræðingar sem helstu sérfræðingar í lyfjum og notkun þeirra vilja með þessu leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.
Yfirlýsinguna má nálgast hér.
Tveir lyfjafræðingar hófu starfsnám í klínískri lyfjafræði á sjúkahúsapóteki Landspítala 1. september 2016. Þetta eru fyrstu nemendurnir sem hefja slíkt starfsnám og því er þetta merkilegur áfangi fyrir sjúkrahúsapótekið, Landspítala og ekki síst sjúklinga sem njóta í auknu öryggi og meiri gæðum í lyfjameðferð á spítalanum. Teknir verða inn tveir lyfjafræðingar á ári í þetta starfsnám fyrstu þrjú árin.
Líkt og víða erlendis hefur orðið mikil framþróun í þjónustu klínískra lyfjafræðinga undanfarin ár á Íslandi. Skortur á klínískum lyfjafræðingum hefur verið þröskuldur fyrir frekari framþróun hérlendis og því verið brýn þörf á að bregðast við þeim vanda.
Við uppbyggingu á náminu var ákveðið að leita til Breta um ráðgjöf og samstarf enda hafa þeir verið leiðandi í þróun klínískrar lyfjafræði. Síðastliðið ár hefur mikil vinna farið í að þróa samstarfið.
Mynd: Klínískt lyfjafræðinám hafið á Landspítala 1. september 2016. Elín I. Jacobsen, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi, María Jóhannsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Helga Kristinsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Freyja Jónsdóttir, klínískur lyfjafræðingur, kennslustjóri í starfsnámi fyrir klíníska lyfjafræði, Pétur S. Gunnarsson, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi.
Lesa meira: Starfsnám lyfjafræðinga í klínískri lyfjafræði hafið á Landspítala
Vaxandi lyfjakostnaður hér á landi hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri. Minna hefur verið fjallað um mikilvægi þess að lyfjameðferðir séu réttar og að við nýtum lyfin eins vel og kostur er. Þjóðin er að eldast og lyfjanotkun mun halda áfram að aukast á næstu árum. Því verðum við að styðja betur við þá sem taka lyf og sérstaklega þá sem þurfa að reiða sig á lyfjameðferð til lengri tíma til að halda góðri heilsu.
Rannsóknir sýna glöggt að sjúklingar sem eru vel upplýstir um lyfin sem þeir taka eru líklegri til að geta þrifist og lifað með sínum sjúkdómi. Þeir eru jafnframt líklegri til að taka lyfin sín. Þannig getur fræðsla um lyf stuðlað að markvissari meðferð á sjúkdómum og um leið dregið úr sóun lyfja og óþarfa sóun skattpeninga. Rannsóknir hafa að auki sýnt að röng lyfjanotkun hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og er í mörgum tilfellum ástæða innlagnar á spítala. Á bráðamóttöku Landspítalans verða oft innlagnir sem hægt hefði verið að fyrirbyggja með aukinni fræðslu um lyf og markvissari stuðningi við sjúklinga í tengslum við lyfjamál. Sýnt hefur verið fram á að aðkoma lyfjafræðinga t.d. á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur, sem fræða sjúklinga og stuðla að markvissari lyfjanotkun þeirra, getur bætt heilsu umtalsvert og dregið úr kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.