Lyfjafræðisafnið verður opið á safnadaginn 13. júlí n.k. og verða lyfjafræðingar á staðnum og fræða gesti um sýningar safnsins.

Kl. 13.30 verður sýnd myndin „LYFIN OKKAR“, fræðsluþáttur um lyf, í fundarsal safnsins. Fjallar þátturinn m.a. um þróun lyfja, hlutverk þeirra og verkun, mismunandi lyfjaform, framleiðslu lyfja og kostnað.

Í Lyfjafræðisafninu eru til sýnis helstu tæki, sem notuð hafa verið til lyfjagerðar öldum saman, en gripir safnsins eru flestir frá fyrri hluta seinustu aldar. Einnig er í safninu sýnishorn af apóteksinnréttingum, sem eru frá fyrstu tugum síðustu aldar.

Urtagarður er staðsettur á milli Nesstofu og Lyfjafræðisafnsins og þar má skoða jurtir sem notaðar voru í alþýðulækningum og til lyfjagerðar á þeim árum sem apótek var rekið í Nesi.

Á safnadaginn verður leiðsögn um urtagarðinn frá kl. 14 – 15.

Aðgangur er ókeypis

Kjarasamningur LFÍ og ríkisins  sem undirritaður var 8. apríl s.l. hefur verið samþykktur. Póstkosning um samninginn fór fram dagana 9. til 22. apríl.

Á kjörskrá voru 67. Alls bárust 34 atkvæði (57%), 29 samþykktu kjarasamninginn (85% af greiddum atkvæðum) en 5 samþykktu hann ekki (15% af greiddum atkvæðum).

 

Nýtt tölublað af Tímariti um lyfjafræði, 3.tbl 2013 er komið út og hefur útprentað eintak verið sent félagsmönnum.

Tímaritið er einnig aðgengilegt hér á heimasíðunni, þar sem boðið er upp á pdf niðurhal eða að lesa tímaritið á netinu.

Efni blaðsins er fjölbreytt að vanda, áhugaverðar og fróðlegar greinar ásamt viðtölum og skiptist efni blaðsins í stórum dráttum í þrjá hluta - Félagið, Fólkið og Fræðin.

Kjarasamningur fyrir hönd lyfjafræðinga sem starfa hjá hinu opinbera hefur verið undirritaður við samninganefnd ríkisins.

Kynning á hinum nýundirritaða samningi mun fara fram í sal Lyfjafræðisafnsins, fimmtudaginn 10. apríl kl 20

Samninginn ásamt bókunum og fylgiskjölum skal bera upp til samþykktar og verður niðurstaðan að liggja fyrir þann 23. apríl 2014.

 

Vegna fréttar á bls. 6 í Fréttablaðinu 31. maí, þar sem sérfræðingur í hjartalækningum varar við notkun Íbúfens, vill stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands (LFÍ) taka fram eftirfarandi:

Það eru ekki nýjar fréttir að lyfið geti aukið líkur á hjartaáfalli og heilablóðfalli. Íbúfen er því með eftirfarandi varúðartexta í fylgiseðli:

“Áhrif á hjarta og heila

Lyf eins og Íbúfen geta tengst lítillega aukinni hættu á hjartaáfalli (stíflufleyg í hjartavöðva) eða heilablóðfalli. Líkur á aukaverkunum eru alltaf meiri við stóra skammta og meðferð í lengri tíma.

Farið alltaf eftir ráðleggingum um skammtastærð og lengd meðferðar. Notið lyfið ekki samfellt lengur en 7 daga án samráðs við lækni.

Ef þú ert með hjartakvilla, hefur áður fengið slag eða telur að þú gætir verið í áhættuhópi (t.d. ef þú ert með háan blóðþrýsting, sykursýki, hátt kólesteról eða reykir) ættir þú að ræða meðferðina við lækni eða lyfjafræðing.”