Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) tekur undir áhyggjur forstjóra Lyfjastofnunar varðandi mönnun í apótekum landsins.

Í reglugerð byggðri á lyfjalögum  segir: „Í lyfjabúð skulu á almennum afgreiðslutíma vera að störfum minnst tveir lyfjafræðingar við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja."

 

Velferðarráðherra getur veitt apóteki undanþágu frá þessu ákvæði, að fenginni umsögn Lyfjastofnunar, sé umfang starfssemi lítið en þó skal gæta þess að fyllsta öryggis við afgreiðslu lyfseðla sé gætt. Lyfjastofnun hefur eftirlit með starfsemi lyfjabúða.

 

Í ársskýrslu Lyfjastofnunar má sjá að á árinu 2010 fjölgaði apótekum á Íslandi um þrjú á sama tíma og lyfjafræðingum í hverju apóteki fækkar.

Í ljósi þess að fjöldi alvarlegra mistaka í afgreiðslu lyfja tvöfaldaðist milli áranna 2009 og 2010, telur LFÍ fulla ástæðu til þess að skoða og meta þær undanþágur sem veittar hafa verið frá kröfum um fjölda lyfjafræðinga í hverju apóteki á hverjum tíma.

 

Það er álit stjórnar LFÍ að fylgja beri lyfjalögum. Nauðsynlegt sé að tryggja faglega mönnun í apótekum landsins svo hægt sé að nýta sérþekkingu lyfjafræðinga sem best og með því auka enn frekar fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja. Réttari notkun og meðhöndlun lyfja gæti orðið mörgum til hagsbóta, þar á meðal skjólstæðingum apóteka og þeim er niðurgreiðir lyfin þ.e. ríkissjóði.

 

Tengiliður

 

Aðalheiður Pálmadóttir

Formaður Lyfjafræðingafélags Íslands

Gsm 824-9202