Yfirlýsing frá Lyfjafræðingafélagi Íslands (LFÍ) vegna umræðu um læknadóp í  Kastsljós þáttum RUV

 

Eitt af hlutverkum Lyfjafræðingafélags Íslands er að stuðla að heilbrigðri og réttri lyfjanotkun og stuðla að faglegu starfi alls staðar þar sem lyf koma við sögu.

Kastljós þættir síðastliðinnar viku sýna afar dökka mynd af undirheimum Reykjavíkur þar sem mikið magn lyfseðilsskyldra lyfja gengur kaupum og sölum. Þættirnir sýna afleiðingar fíknar og ofnotkunar lyfseðilskyldra lyfja með dauðsföllum og öðrum hörmulegum afleiðingum. Að auki er einnig bent á að um mikla sóun á almannafé er að ræða.

Ljóst er að núverandi eftirlit með eftirritunarskyldum lyfjum er á engan hátt nægilegt.

 

LFÍ leggur áherslu á að:

  • Stórefla þurfi núverandi eftirlit og nýta eigi betur þá rafrænu gagnagrunna sem nú þegar eru til staðar.

  • Gera þurfi viðeigandi ráðstafanir til að samtengja aðgangsstýrðan lyfja gagnagrunn á milli allra apóteka. Þannig verði hægt að fylgjast með lyfjanotkun einstaklinga á milli apóteka og með því koma í veg fyrir að einstaklingar geti leyst út samskonar lyf í mismunandi apótekum. Einnig mætti huga að því að minnka magn eftirritunarskyldra lyfja á hverja lyfjaávísun og með því takmarka enn frekar aðgang að þessum lyfjum.

  • Nýta eigi skömmtunarþjónustu apóteka betur og huga mætti að því að koma á fyrirkomulagi þar sem fíkill fær dagskammt afgreiddan í apóteki og tæki lyfið inn undir eftirliti lyfjafræðings.

  • Rafræn sjúkraskrá verði aðgengileg öllum læknum.

Lyfjafræðingar í Lyfjafræðingafélagi Íslands eru reiðbúnir að leggja sitt að mörkum til að vinna með yfirvöldum og öðrum heilbrigðisstéttum á Íslandi að umbótum á núverandi kerfi til að markviss, rétt og skynsamleg lyfjanotkun megi verða í þessum lyfjaflokkum sem og öðrum.

 

Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands

 

 

Tengiliður:  Ingunn Björnsdóttir varaformaður LFÍ, sími 847-5577