Ráðstefna sem nefnist The 5th Nordic Social Pharmacy and Health Service Research Conference (NSCP) verður haldin á Hótel Loftleiðum dagana 15.-16. júní 2011.

Eins og nafnið ber með sér er þetta í 5. skipti sem slík norræn ráðstefna í félagslyfjafræði er haldin. Hún er haldin annað hvert ár og hefur verið haldin á hinum fjórum Norðurlöndunum áður. Nú er sem sagt komið að Íslandi.

Ráðstefnan verður í fyrsta skipti haldin með norrænum klínískum lyfjafræðingum. Þeir hafa nýlega stofnað með sér netverk og mun ráðstefnan því líka verða fundur The Nordic Networking Group in Clinical Pharmacy (NNGCP).

Teljum við sem stöndum að þessu að hér sé brotið blað og að íslenskir lyfjafræðingar hafi sýnt að þessar skyldu lyfjafræðigreinar félagslyfjafræði og klínísk lyfjafræði eigi margt sameiginlegt og þurfi að vinna þétt saman til að auka möguleikana á framþróun fagsins.

Yfirskrift sameiginlegu ráðstefnunnar er „Practicing pharmacy under economic constraints - putting the patient in focus". Við lyfjafræðingar vinnum að því að sjúklingar fái þau lyf sem þeir þurfa, þrátt fyrir og í samræmi við miklar aðgerðir til þess að hagræða í heilbrigðiskerfinu.

 

Á ráðstefnunni verða tveir alþjóðlega þekktir gestafyrirlesara sem munu halda opnunarfyrirlestra um yfirskrift ráðstefnunnar. Þær eru Dr. Linda Strand prófessor við Minnesota háskóla og einn af upphafsmönnum hugtaksins lyfjafræðilegrar umsjár (Pharmaceutical Care) og Dr. Rachel Elliott sem er prófessor í lyfjafræði við Nottingham háskóla og heilsuhagfræðingur. Einnig er ráðgert að NNGCP bjóði gestafyrirlesurum.

Ég vona að sem flestir lyfjafræðingar geti nýtt sér þetta einstaka tækifæri til að hitta erlenda kollega og fræðast um þessi fagsvið. Frekari upplýsingar eru fáanlegar á heimasíðu ráðstefnunnar www.nspc2011.hi.is.

Í íslensku undirbúningsnefndinni eru auk undirritaðrar:

Anna I. Gunnarsdóttir, LSH

Elín Jacobsen, LSH og Lyfjafræðideild HÍ Guðrún Þengilsdóttir, Lyfjafræðideild HÍ Ingunn Björnsdóttir, Heilbrigðisráðuneyti Rannveig Einarsdóttir, LSH Þórunn Guðmundsdóttir, LSH

 

F.h. undirbúningsnefndar,

Anna Birna Almarsdóttir prófessor, Lyfjafræðideild HÍ