Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) skorar á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir breytingu á lyfjalögum með tilliti til fyrirkomulags á dreifingu dýralyfja í landinu.  Hagsmunaárekstrar koma til  þegar sami aðili ávísar lyfi og hefur ávinning af sölu þess og slíkar aðstæður þarf að forðast.  Það er álit  LFÍ að dreifing dýralyfja eigi að vera á ábyrgð lyfjafræðinga í lyfjabúðum. Lyfjadreifing er afleiðing ávísunar lækna, tannlækna og dýralækna á lyf. Lyfjafræðingar búa yfir víðtækri þekkingu á lyfjum og ætti lyfjadreifing í landinu að vera á höndum lyfjafræðinga og á ábyrgð þeirra, hvort sem um er að ræða mannalyf eða dýralyf.

 

Bent er á eftirfarandi misræmi í lyfjalögum:

 

Samkvæmt 21. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 með síðari breytingum mega starfandi læknar, tannlæknar og dýralæknar ekki vera eigendur að svo stórum hluta í lyfsölu að það hafi teljandi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra. Ástæða þess að ákvæði þetta var sett hlýtur að hafa verið að hindra að hagsmunaárekstrar sköpuðust; óeðlilegt samkeppnisumhverfi og óhófleg ávísun lyfja kæmi til sbr. markmið laganna sem koma fram í 1. gr.  

Engu að síður er dýralæknum gefin heimild til lyfsölu frá starfsstöð sinni í 33. gr. sömu laga. Það má þó ljóst vera, eins og viðurkennt er með 21. gr. laganna, að sala dýralækna á lyfjum sem hefur veruleg áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra skapar freistingu til ávísunar lyfja. Slíkt fyrirkomulag stríðir gegn þeim markmiðum lyfjalaga, sem skilgreind eru í 1. gr. þeirra.

Af ofangreindu er ljóst að aðgerða er þörf til að markmiðum lyfjalaga sé sem best náð með lögunum í hvívetna. Því ályktar Lyfjafræðingafélag Íslands að nema þurfi brott ákvæði er heimila dýralæknum svo víðtæka lyfsölu sem raun ber vitni.

 

Aðalheiður Pálmadóttir

Formaður LFÍ

Sími 824 9202