Þann 17. mars var undirritað í Nesstofu samkomulag um stofnun og rekstur Urtagarðs í Nesi. Auk Seltjarnarnesbæjar standa að samkomulaginu Garðyrkjufélag Íslands, Landlæknisembættið, Læknafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Lækningaminjasafn Íslands og Lyfjafræðisafnið.

 

Urtagarðurinn er settur á fót til þess að minnast þess að í ár eru 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis árið 1760 og 125 ár eru frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands árið 1885, að tilhlutan Georg Schierbecks þáverandi landlæknis. Garðurinn er einnig til minningar um fyrsta íslenska lyfsalann,  Björn Jónsson  sem mun hafa stofnað og annast lækningajurtagarð í Nesi.

 

Urtagarður verður lifandi safn urta sem gegnt hafa hlutverki í lækningum og lyfjagerð,  einnig sem nytjajurtir til matar, næringar- og heilsubóta. Garðurinn verður vettvangur fræðslu um nýtingu urta til lækninga og lyfjagerðar. Hann verður rekinn sem hluti af starfsemi Lækningaminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins í Nesi.

 

Áætlað er að Urtagarður í Nesi verði opnaður um miðjan ágúst.

mynd1.jpg

Á myndinni eru Kristín Einarsdóttir, formaður stjórnar Lyfjafræðisafnsins, Gunnar Lúðvíksson, formaður stjórnar Lækningaminjasafns Íslands, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Aðalheiður Pálmadóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands, Geir Gunnlaugsson landlæknir, Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands og Vilhjálmur Lúðvíksson formaður Garðyrkjufélags Íslands.