FIP þingið sem haldið var í Istanbul dagana 3. - 8. september síðastliðinn var það 69. í röðinni og var sótt af tæplega 3000 lyfjafræðingum, fólki sem starfar að lyfjafræðivísindum og rannsóknum, lyfjafræðinemum og öðrum gestum.  Yfirskrift þingsins að þessu sinni var: Responsibility for Patient Outcomes - are you ready?

Leitast var við að svara þeirri spurningu frá hinum ýmsu hliðum. Velt var upp spurningum eins og:  „Hvert er hlutverk lyfjafræðingsins sem hluti af heilbrigðiskerfinu? Eru lyfjafræðingar með þjálfun og reynslu sem þeir þurfa til þess að sinna því hlutverki? Er nám lyfjafræðingsins miðað við hlutverk hans? Hvert er hlutverk lyfjafræðinga í samstarfi heilbrigðisstétta? Haldin voru erindi um fyrirkomulag lyfjafræðináms og samstarfsverkefna jafnframt því að segja frá helstu sviðum þar sem aukin þekking kemur til með að hafa áhrif á lyfjameðferð í framtíðinni. Þessi upptalning er langt frá því að vera tæmandi og tekur fyrst og fremst mið af þeim erindum sem fulltrúar Íslands náðu að hlusta á meðan á þinginu stóð. Gerð verður nánari grein fyrir einstökum fyrirlestrum síðar.

Einnig var dómur EU frá 19. maí síðastliðnum ræddur sérstaklega en þar kveður á um að aðildarlönd EU geti gert það að skilyrði að einungis lyfjafræðingar geti átt apótek þar sem starfsemi þeirra sé það mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskeðjunni (Conclusions from the 19th May 2009 European Court judgment on pharmacy ownership within EU). Dómurinn hefur ekki áhrif á þau lönd sem þegar hafa ákeðið að ekki þurfi lyfjafræðing sem eigenda til þess að tryggja lyfjafræðilega faglegan rekstur en talið er líklegt að dómurinn muni hafa áhrif á hvernig aðildarlönd velja að skipuleggja sitt kerfi í framtíðinni.

Það vakti athygli okkar sem komum frá Íslandi að lönd sem við töldum að sætu aftar á merinni en við hvað varðar faglegt starf og hvað lyfjafræðingar eru að fást við í daglegu starfi með sjúklinga, reyndust vera með mikið samstarf við aðrar heilbrigðisstéttir. Enginn Íslendingur var með Poster eða innlegg á þinginu, né heldur hafði Ísland tekið þátt í könnunum á vegum FIP (eru til dæmis með könnun fyrir sjúkrahúsapótek) eða verkefnum (innleiðing á GPP í apóteki) svo dæmi séu tekin. Það er hægt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort við á Íslandi séum nógu dugleg að segja frá því sem við erum að fást við í okkar daglegu störfum.

Gerð verður frekari grein fyrir einstökum fyrirlestrum þegar líður á haustið. Meðlimum sem ekki þekkja til FIP er bent á að skoða heimasíðuna: http://www.fip.org/www/

Kær kveðja

Aðalheiður Pálmadóttir