Lyfjafræðingafélagið hélt félagsfund að kvöldi 22. janúar, þar sem prófessor Anna Birna Almarsdóttir skýrði frá úttekt Rannsóknarstofnunar um lyfjamál á hvaða möguleikar væru varðandi upptöku þjónustugjalda í apótekum á Íslandi og Rob Heerdink frá Holandi sagði frá hollenskum rannsóknum á þunglyndislyfjameðferð.

Ríkarður Róbertsson var fundarstjóri.

Nokkuð mikið rok var úti þetta kvöld, og því fámennt og góðmennt í Lyfjafræðisafninu. Rokið var það mikið, að erfitt var að heyra allt sem fyrirlesararnir sögðu, þrátt fyrir að þeir brýndu raustina eins og þeir gátu.


Anna Birna útskýrði í nokkuð ítarlegu máli hver munurinn væri á þjónustugjöldum og afgreiðslugjöldum, og fór síðan yfir hvaða möguleikar væru fyrir hendi varðandi innleiðingu þjónustugjalda. Hún kvað þjónustugjöld vera greiðslur fyrir sértæka þjónustu við sjúklinga, sem væri til viðbótar venjulegri lyfjaafgreiðslu. Hún nefndi dæmi frá nokkuð mörgum löndum, t.d. Quebec og Ontariofylkjum í Kanada, Minnesota í Bandaríkjunum, Englandi, Wales og Skotlandi, auk Danmerkur og Þýskalands. Hún taldi mikilvægt að greina á milli afgreiðslu lyfja og umframþjónustu, og gekk út frá að apótekslyfjafræðingar vildu að starfssvið sitt yrði meira við heilbrigðisþjónustu en nú er.

Hún nefndi að mögulegt væri að útfæra þjónustuna sem marga litla þjónustupakka eða einn stóran með vel skilgreindri uppbyggingu gjalda. Einnig að hugsanlega mætti skilgreina þjónustu fyrir hvern einstakan sjúkling, eða fyrir hvert einstakt skipti, og einnig mætti hugsa sér að greitt væri ákveðið á tímaeiningu, greitt eftir meðferðarþyngd, eða samið um eingreiðslu fyrir hvern sjúkling.

Hún taldi mikilvægt að lyfjaafgreiðslan væri aðgreind frá klínískri þjónustu og taldi jafnvel mögulegt að klíníska þjónustan væri í sér-deild innan apóteksins. Hún taldi álitlegast að greitt væri eftir meðferðarþyngd, annað hvort samkvæmt fjölda lyfja eða samkvæmt fjölda sjúkdómsgreininga.

Eftir fyrirlestur Önnu Birnu spunnust nokkrar umræður, og snérust þær aðallega um álagningu og afgreiðslugjöld. Pistilskrifari vonar að það hafi verið út af veðrinu, að fundarmenn hafi hreinlega hvorki heyrt nógu vel hversu mikla áherslu Anna Birna lagði á muninn á afgreiðslugjöldum og þjónustugjöldum né hversu mikla áherslu hún lagði á mikilvægi þess að innleiða þjónustugjöld.

 

Rob Heerdink hélt síðan fyrirlestur um þunglyndislyfjameðferð. Fram kom í máli hans að ekki væri hægt að búast við að öll kurl kæmu til grafar um þunglyndislyf í klínískum tilraunum, þar sem einungis 14 % mikið þunglyndra sjúklinga uppfylltu þau skilyrði sem sett væru fyrir þátttöku í klínískum tilraunum. Mjög ungir einstaklingar mættu ekki taka þátt í klínískum tilraunum, mjög gamlir heldur ekki og heldur ekki ófrískar konur. Þess utan sagði hann að sjúklingarnir tækju sjaldnast lyfin eins og mælt væri með. Hann sagði algengt að fólk sem ekki væri alvarlega þunglynt fengi ávísað þunglyndislyfjum, þrátt fyrir að ábendingin væri alvarlegt þunglyndi. Hann minntist á gagnreynda læknisfræði (evidence based medicine), og velti því upp hvort ekki væri ástæða til að fara líka hina leiðina, þ.e. byggja sannanir (evidence) á reynslunni af notkun lyfjanna í raunverulegum sjúklingum (medicine based evidence).

 

Dálítið var spjallað í fundarlok, áður en fundargestir drifu sig út í rokið og óku til síns heima (ekki varð vart við gangandi, sem kannski var eins gott, líklegra að þeir hefðu verið fjúkandi).

 

Ingunn Björnsdóttir