Förgum lyfjum á réttan hátt.

Í dag hefst átak sem Rannsóknastofnun um lyfjamál stendur fyrir sem miðar að því að vekja fólk til vitundar um hvernig best sé að farga gömlum og ónothæfum lyfjum. Gömlum lyfjum skal skila aftur í apótekið en ekki henda í ruslið eða sturta þeim í salernið.

Reynslan sýnir að stór hluti eitrunartilfella eiga sér stað inni á heimilum landsmanna. Neysla fyrndra lyfja getur verið áhrifalítil og jafnvel hættuleg. Geymsla gamalla ónothæfra lyfja á heimilum eykur hættuna á misnotkun lyfja. Mikilvægt er að geyma lyf á réttan hátt og á þeim stöðum þar sem börn ná ekki til.

Vitundarvakningin er unnin í samstarfi við apótekin og Landspítala háskólasjúkrahús og er jafnframt liður í rannsóknarverkefni um umfang og ástæður þess að lyfjum er hent.