Á þingi alþjóðasamtaka lyfjafræðinga (FIP), sem haldið var í Beijing í byrjun september var fjallað nokkuð um málefni sem er vaxandi áhyggjuefni Alþjóða-heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), lyfjaiðnaðarins, heilbrigðisstétta og stjórnvalda víða um heim. Málefni þetta er lyfjafalsanir, eða framleiðsla á „counterfeit medicines”, sem að sögn Jeffrey Gren frá Bandaríska viðskiptaráðuneytinu er nýjasta áhugamál þeirra sem fengist hafa við eiturlyfjaframleiðslu. Michael Anisfeld, frá bandaríska ráðgjafarfyrirtækinu Globepharm Consulting, tilgreindi nánar: rússnesku mafíunnar, kólumbískra „viðskiptajöfra” og hryðjuverkasamtaka eins og Hizbollah og Al-Quaeda.

Augljóst er að hryðjuverkasamtök hafa þarna séð leið til að skaða og drepa á ófyrirsjáanlegan hátt, en hitt virtist ekki jafn augljóst, hvers vegna rússneska mafían og kólumbískir „viðskiptajöfrar” kjósa að beina kröftum sínum að lyfjafölsunum fremur en eiturlyfjaframleiðslu. Jeffrey Gren varpaði ljósi á málið: ávöxtun fjármuna sem „viðskiptajöfrarnir” leggja í eiturlyfjaframleiðslu á borð við heróínframleiðslu er nálægt 200%, á meðan hún getur verið 2000% ef peningarnir eru lagðir í lyfjafalsanir af sumum tegundum. Refsiramminn gerir starfsemina ekki minna aðlaðandi: langir fangelsisdómar geta legið við ef menn eru gripnir við eiturlyfjaframleiðslu eða sölu, á meðan refsiramminn fyrir lyfjafalsanir er víða um lönd svipaður og fyrir fölsun á Levi’s gallabuxum eða Prada töskum. Þó er ekki vitað til þess að falsaðar gallabuxur eða töskur hafi skaðað heilsu fólks að nokkru marki, en fölsuð lyf hafa skaðað/drepið fjölda fólks, þótt meira hafi verið um slík dauðsföll í þróunarlöndum en þróuðum. Refsiramminn miðast gjarnan við að verið er að brjóta gegn lögum um skrásett vörumerki og tekur þannig oft ekki mið af hættunni sem lögbrotið skapar fyrir blásaklausan almúgann.

En skyldu íslensk stjórnvöld hafa áhyggjur af lyfjafölsunum? Lauslegar athuganir benda til að svo sé ekki. Lyfjastofnun stoppar að vísu nokkurn fjölda ólöglegra sendinga á fæðubótarefnum og/eða lyfjum í viku hverri, en ekki er talin ástæða til að reyna að flokka þessar sendingar eftir því hvort um fölsuð lyf sé að ræða eða ekki. Stofnunin og ráðuneytið telja nægja að stöðva sendingarnar á öðrum forsendum. Þetta er ef til vill ekki stórkostlegt áhyggjuefni fyrir Íslendinga að svo stöddu, en ef internetverslun með lyf verður leyfð, þá horfir málið hugsanlega öðruvísi við (samkvæmt fyrirlestri Jeffrey Gren má reikna með að helmingur internetverslunar með lyf snúist um falsaða vöru). Við aukna internetverslun má reikna með að Lyfjastofnun fái enn meira að gera við að skanna stikkprufur af lyfjasendingum og hefur þó stofnunin ærinn starfa fyrir, ef mið er tekið af starfsmannafjölda. Tekið skal fram að ekki er hver einasti pakki frá útlöndum grandskoðaður þótt allir séu þeir opnaðir, heldur eru teknar stikkprufur til nákvæmari skoðunar. Eftirlit með lyfjum sem berast til landsins eftir hefðbundnum innflutningsleiðum er sambærilegt við eftirlit af slíku tagi í nágrannalöndunum, þótt „viðskiptajöfrar” í þessari grein „viðskipta” hafi jafnvel verið staðnir að því að koma fölsuðum lyfjum inn í lyfjasendingar sem fara hefðbundnar leiðir (sjá til dæmis frétt á heimasíðu Lyfjastofnunar, um falsað lyf sem barst í samhliðainnflutningi frá Frakklandi til Englands).

Texti þessi er skrifaður almenningi til umhugsunar áður en lagt er út í internetverslun með lyf. Von mín er sú að hann beri ekki fyrir augu allt of margra kólumbískra „viðskiptajöfra”, rússneskra mafíósa eða hryðjuverkamanna. Þeim gæti þótt íslenska kerfið athyglisvert.

Grein þessi er eftir Ingunni Björnsdóttur og birtist í Blaðinu 18. september 2007.