Fyrstu_lyfjafraedingarnir_i_klinisku_lyfjafraedinami_a_LSH

Tveir lyfjafræðingar hófu starfsnám í klínískri lyfjafræði á sjúkahúsapóteki Landspítala 1. september 2016. Þetta eru fyrstu nemendurnir sem hefja slíkt starfsnám og því er þetta merkilegur áfangi fyrir sjúkrahúsapótekið, Landspítala og ekki síst sjúklinga sem njóta í auknu öryggi og meiri gæðum í lyfjameðferð á spítalanum. Teknir verða inn tveir lyfjafræðingar á ári í þetta starfsnám fyrstu þrjú árin.

Líkt og víða erlendis hefur orðið mikil framþróun í þjónustu klínískra lyfjafræðinga undanfarin ár á Íslandi. Skortur á klínískum lyfjafræðingum hefur verið þröskuldur fyrir frekari framþróun hérlendis og því verið brýn þörf á að bregðast við þeim vanda.              
Við uppbyggingu á náminu var ákveðið að leita til Breta um ráðgjöf og samstarf enda hafa þeir verið leiðandi í þróun klínískrar lyfjafræði. Síðastliðið ár hefur mikil vinna farið í að þróa samstarfið. 

Mynd: Klínískt lyfjafræðinám hafið á Landspítala 1. september 2016. Elín I. Jacobsen, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi, María Jóhannsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Helga Kristinsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Freyja Jónsdóttir, klínískur lyfjafræðingur, kennslustjóri í starfsnámi fyrir klíníska lyfjafræði, Pétur S. Gunnarsson, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi.

Námið verður sett upp sem samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala, University College London og Royal Pharmaceutical Society. Samstarfið mun fela í sér að Háskóli Íslands og Landspítali fái að nýta sér marklýsingar breska námsins, skilgreindar námskröfur og handleiðslu við uppbyggingu og skipulag námsins. Auk þess verður væntanlegum nemendum gefið tækifæri til að sækja tímabundna námsdvöl við háskólasjúkrahús í Bretlandi. 

Stofnuð hefur verið ný námsleið við lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Náminu, sem er þriggja ára launað starfsnám, mun ljúka með meistaragráðu frá Háskóla Íslands. Námið fer að mestu leyti fara fram í sjúkrahúsapóteki Landspítala. Markmið þess er að þjálfa og þróa hæfni / færni lyfjafræðinga í grundvallarþáttum klínískrar lyfjafræði og sjúkrahúslyfjafræði.  Samhliða innleiðingu á starfsnáminu skapast tækifæri til breytinga í verklagi og verkferlum lyfjafræðinga á Landspítala. Nýjungar, sem felast til dæmis í því að samræma vinnubrögð milli deilda, verklag við útskrift, upplýsingargjöf og fleira, verða innleiddar til að aðlaga starfsemina að marklýsingum námsins. Þetta snýst í rauninni um gæði og stöðlun lyfjafræðiþjónustu sem er ávinningur þess að taka upp starfsnámið og fylgja kröfum Bretanna. Þannig verður þetta lyftistöng fyrir fagmennsku hjá stéttinni í heild.

Sambærileg þróun hefur verið hjá öðrum sérgreinum á Landspítala m.a. annars hjá lyflæknum. Þeir hafa byggt upp sérnám í lyflæknisfræði í samstarfi við Breta í gegnum Royal College of Physicians. Friðbjörn Sigurðsson framhaldsmenntunarstjóri lyflækna hefur stutt við bakið á lyfjafræðingum á Landspítala á þeirri vegferð. Ákveðið hefur verið að vera í töluverðu samstarfi m.a. með sameiginlegri kennslu, tilfellafundum og fleiru. Þess er vænst að samstarfið styrki báðar stéttir til framtíðar því teymisvinna sé nauðsynleg til að takast á við aukinn fjöldi aldraðra sjúklinga með margþætta langvinna sjúkdóma.