Fyrstu_lyfjafraedingarnir_i_klinisku_lyfjafraedinami_a_LSH

Tveir lyfjafræðingar hófu starfsnám í klínískri lyfjafræði á sjúkahúsapóteki Landspítala 1. september 2016. Þetta eru fyrstu nemendurnir sem hefja slíkt starfsnám og því er þetta merkilegur áfangi fyrir sjúkrahúsapótekið, Landspítala og ekki síst sjúklinga sem njóta í auknu öryggi og meiri gæðum í lyfjameðferð á spítalanum. Teknir verða inn tveir lyfjafræðingar á ári í þetta starfsnám fyrstu þrjú árin.

Líkt og víða erlendis hefur orðið mikil framþróun í þjónustu klínískra lyfjafræðinga undanfarin ár á Íslandi. Skortur á klínískum lyfjafræðingum hefur verið þröskuldur fyrir frekari framþróun hérlendis og því verið brýn þörf á að bregðast við þeim vanda.              
Við uppbyggingu á náminu var ákveðið að leita til Breta um ráðgjöf og samstarf enda hafa þeir verið leiðandi í þróun klínískrar lyfjafræði. Síðastliðið ár hefur mikil vinna farið í að þróa samstarfið. 

Mynd: Klínískt lyfjafræðinám hafið á Landspítala 1. september 2016. Elín I. Jacobsen, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi, María Jóhannsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Helga Kristinsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Freyja Jónsdóttir, klínískur lyfjafræðingur, kennslustjóri í starfsnámi fyrir klíníska lyfjafræði, Pétur S. Gunnarsson, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi.

Alþjóðadagur lyfjafræðinga er í dag, 25. september. Þema dagsins er:
Aðgengi að lyfjafræðingum er aðgengi að heilsu
Af því tilefni birtir LFÍ auglýsingu í Fréttablaðinu í dag.
Tilgangur auglýsingarinnar er að vekja athygli almennings á deginum og mikilvægi þess að þekkja lyfin sín og taka þau rétt.
Aðgengi að lyfjafræðingum og lyfjum er ómetanlegt aðgengi að heilsu.
Í mörg ár hefur verið viðurkennt að aðgengi að lyfjum hefur mikil áhrif á heilsu fólks. Lyfjafræðingar koma að dreifingu lyfja á öllum stigum til að tryggja gæði og framboð lyfja.
Hins vegar tryggir aðgengi að lyfjum ekki sjálfkrafa bestu mögulegu útkomu að bættri heilsu.
Rannsókn sem var gerð 2012 áætlaði að unnt væri að spara árlega 500 milljarða Bandaríkjadala með ábyrgri notkun lyfja og að þekking lyfjafræðinga væru stórlega vannýtt auðlind til að bæta ábyrga notkun lyfja.
Því er mikilvægt að sameina aðgengi að þekkingu lyfjafræðinga og lyfjum.
Árið 2010 var talið að 13% af komum einstaklinga í apótek fælust eingöngu í ráðgjöf og engri sölu á neinum af þeim vörum sem þar eru á boðstólum. Lyfjafræðingar eru því sú heilbrigðisstétt sem víðast hvar í heiminum hefur besta aðgengið fyrir almenning og nýtur mikils trausts.
LFÍ hvetur lyfjafræðinga til að fagna því og nota daginn í dag og alla daga til að kynna mikilvægi okkar í heilbrigðisþjónustu. Verum sýnileg og gefum okkur tíma til að tala við almenning sem vill tala við lyfjafræðinga. Tökum virkan þátt í að bæta heilbrigði allra.

Aðalsteinn Jens Loftsson
Formaður LFÍ

wpd logo orangeBG cmyk

Á 89. fundi norrænna lyfjafræðingafélaga (NFU) sem haldinn var í Osló dagana 14. til 16. ágúst var undirrituð yfirlýsing varðandi hlutverk lyfjafræðinga í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.

NFU-undirritun

Á myndinni má sjá formenn norrænu félaganna undirrita yfirlýsinguna, frá vinstri: Kristina Frithofsson (Svíþjóð), Tove Ytterbø (Noregi), Lóa María Magnúsdóttir (Íslandi), Kirst Kvarnström (Finnlandi) og Rikke Løvig Simonsen (Danmörku).

Lyfjafræðingar sem helstu sérfræðingar í lyfjum og notkun þeirra vilja með þessu leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.

Yfirlýsinguna má nálgast hér.

Með tilvísun í viðtal við Vilhjálm Ara Arason lækni sem birt var á RÚV 21. júlí s.l. vill Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) koma eftirfarandi á framfæri:

„Mér finnst stundum skjóta skökku við að apótekarar, þeim er náttúrlega treyst fyrir lyfsölu í landinu, að þeir skuli vera að auglýsa lausasölulyf grimmt í blöðum - auglýsingabann nær ekki yfir lausasölulyf, heldur bara hefðbundin lyf sem læknir þarf að skrifa upp á - gagngert til að selja sem mest af þessum lyfjum,“ segir Vilhjálmur Ari.

Það skal tekið fram að lyfsalar eru ekki að auglýsa lyf nema í undantekningartilvikum og þá bara verð og eða afslætti. Lyfjaauglýsingar eru á vegum framleiðenda eða umboðsmanna þeirra.

Lyfsalar taka ekki afstöðu til þess hvort fólk sé að taka of mikið magnesíum. Hins vegar hefur enginn farið framar í broddi fylkingar en Hallgrímur Magnússon kollegi Vilhjálms í að mæla með inntöku magnesíum.

Með kveðju,

Aðalsteinn Jens Loftsson formaður LFÍ

Sími 6932221, netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Vaxandi lyfjakostnaður hér á landi hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri. Minna hefur verið fjallað um mikilvægi þess að lyfjameðferðir séu réttar og að við nýtum lyfin eins vel og kostur er. Þjóðin er að eldast og lyfjanotkun mun halda áfram að aukast á næstu árum. Því verðum við að styðja betur við þá sem taka lyf og sérstaklega þá sem þurfa að reiða sig á lyfjameðferð til lengri tíma til að halda góðri heilsu.

Rannsóknir sýna glöggt að sjúklingar sem eru vel upplýstir um lyfin sem þeir taka eru líklegri til að geta þrifist og lifað með sínum  sjúkdómi. Þeir eru jafnframt líklegri til að taka lyfin sín. Þannig getur fræðsla um lyf stuðlað að markvissari meðferð á sjúkdómum og um leið dregið úr sóun lyfja og óþarfa sóun skattpeninga. Rannsóknir hafa að auki sýnt að röng lyfjanotkun hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og er í mörgum tilfellum ástæða innlagnar á spítala. Á bráðamóttöku Landspítalans verða oft innlagnir sem hægt hefði verið að fyrirbyggja með aukinni fræðslu um lyf og markvissari stuðningi við sjúklinga í tengslum við lyfjamál. Sýnt hefur verið fram á að aðkoma lyfjafræðinga t.d. á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur, sem fræða sjúklinga og stuðla að markvissari lyfjanotkun þeirra, getur bætt heilsu umtalsvert og dregið úr kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.

Lyfjafræðisafnið verður opið á safnadaginn 13. júlí n.k. og verða lyfjafræðingar á staðnum og fræða gesti um sýningar safnsins.

Kl. 13.30 verður sýnd myndin „LYFIN OKKAR“, fræðsluþáttur um lyf, í fundarsal safnsins. Fjallar þátturinn m.a. um þróun lyfja, hlutverk þeirra og verkun, mismunandi lyfjaform, framleiðslu lyfja og kostnað.

Í Lyfjafræðisafninu eru til sýnis helstu tæki, sem notuð hafa verið til lyfjagerðar öldum saman, en gripir safnsins eru flestir frá fyrri hluta seinustu aldar. Einnig er í safninu sýnishorn af apóteksinnréttingum, sem eru frá fyrstu tugum síðustu aldar.

Urtagarður er staðsettur á milli Nesstofu og Lyfjafræðisafnsins og þar má skoða jurtir sem notaðar voru í alþýðulækningum og til lyfjagerðar á þeim árum sem apótek var rekið í Nesi.

Á safnadaginn verður leiðsögn um urtagarðinn frá kl. 14 – 15.

Aðgangur er ókeypis