Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) tekur undir áhyggjur forstjóra Lyfjastofnunar varðandi mönnun í apótekum landsins.

Í reglugerð byggðri á lyfjalögum  segir: „Í lyfjabúð skulu á almennum afgreiðslutíma vera að störfum minnst tveir lyfjafræðingar við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja."

 

Velferðarráðherra getur veitt apóteki undanþágu frá þessu ákvæði, að fenginni umsögn Lyfjastofnunar, sé umfang starfssemi lítið en þó skal gæta þess að fyllsta öryggis við afgreiðslu lyfseðla sé gætt. Lyfjastofnun hefur eftirlit með starfsemi lyfjabúða.

 

Í ársskýrslu Lyfjastofnunar má sjá að á árinu 2010 fjölgaði apótekum á Íslandi um þrjú á sama tíma og lyfjafræðingum í hverju apóteki fækkar.

Í ljósi þess að fjöldi alvarlegra mistaka í afgreiðslu lyfja tvöfaldaðist milli áranna 2009 og 2010, telur LFÍ fulla ástæðu til þess að skoða og meta þær undanþágur sem veittar hafa verið frá kröfum um fjölda lyfjafræðinga í hverju apóteki á hverjum tíma.

 

Það er álit stjórnar LFÍ að fylgja beri lyfjalögum. Nauðsynlegt sé að tryggja faglega mönnun í apótekum landsins svo hægt sé að nýta sérþekkingu lyfjafræðinga sem best og með því auka enn frekar fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja. Réttari notkun og meðhöndlun lyfja gæti orðið mörgum til hagsbóta, þar á meðal skjólstæðingum apóteka og þeim er niðurgreiðir lyfin þ.e. ríkissjóði.

 

Tengiliður

 

Aðalheiður Pálmadóttir

Formaður Lyfjafræðingafélags Íslands

Gsm 824-9202

Compromising safety and quality: A risky path

3.-8. september 2011, Hyderabad, India Sjá nánar á www.fip.org/hyderabad2011

FIP2011 Hyderabad India

Yfirlýsing frá Lyfjafræðingafélagi Íslands (LFÍ) vegna umræðu um læknadóp í  Kastsljós þáttum RUV

 

Eitt af hlutverkum Lyfjafræðingafélags Íslands er að stuðla að heilbrigðri og réttri lyfjanotkun og stuðla að faglegu starfi alls staðar þar sem lyf koma við sögu.

Kastljós þættir síðastliðinnar viku sýna afar dökka mynd af undirheimum Reykjavíkur þar sem mikið magn lyfseðilsskyldra lyfja gengur kaupum og sölum. Þættirnir sýna afleiðingar fíknar og ofnotkunar lyfseðilskyldra lyfja með dauðsföllum og öðrum hörmulegum afleiðingum. Að auki er einnig bent á að um mikla sóun á almannafé er að ræða.

Ljóst er að núverandi eftirlit með eftirritunarskyldum lyfjum er á engan hátt nægilegt.

 

LFÍ leggur áherslu á að:

  • Stórefla þurfi núverandi eftirlit og nýta eigi betur þá rafrænu gagnagrunna sem nú þegar eru til staðar.

  • Gera þurfi viðeigandi ráðstafanir til að samtengja aðgangsstýrðan lyfja gagnagrunn á milli allra apóteka. Þannig verði hægt að fylgjast með lyfjanotkun einstaklinga á milli apóteka og með því koma í veg fyrir að einstaklingar geti leyst út samskonar lyf í mismunandi apótekum. Einnig mætti huga að því að minnka magn eftirritunarskyldra lyfja á hverja lyfjaávísun og með því takmarka enn frekar aðgang að þessum lyfjum.

  • Nýta eigi skömmtunarþjónustu apóteka betur og huga mætti að því að koma á fyrirkomulagi þar sem fíkill fær dagskammt afgreiddan í apóteki og tæki lyfið inn undir eftirliti lyfjafræðings.

  • Rafræn sjúkraskrá verði aðgengileg öllum læknum.

Lyfjafræðingar í Lyfjafræðingafélagi Íslands eru reiðbúnir að leggja sitt að mörkum til að vinna með yfirvöldum og öðrum heilbrigðisstéttum á Íslandi að umbótum á núverandi kerfi til að markviss, rétt og skynsamleg lyfjanotkun megi verða í þessum lyfjaflokkum sem og öðrum.

 

Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands

 

 

Tengiliður:  Ingunn Björnsdóttir varaformaður LFÍ, sími 847-5577

Ráðstefna sem nefnist The 5th Nordic Social Pharmacy and Health Service Research Conference (NSCP) verður haldin á Hótel Loftleiðum dagana 15.-16. júní 2011.

Eins og nafnið ber með sér er þetta í 5. skipti sem slík norræn ráðstefna í félagslyfjafræði er haldin. Hún er haldin annað hvert ár og hefur verið haldin á hinum fjórum Norðurlöndunum áður. Nú er sem sagt komið að Íslandi.

Ráðstefnan verður í fyrsta skipti haldin með norrænum klínískum lyfjafræðingum. Þeir hafa nýlega stofnað með sér netverk og mun ráðstefnan því líka verða fundur The Nordic Networking Group in Clinical Pharmacy (NNGCP).

Teljum við sem stöndum að þessu að hér sé brotið blað og að íslenskir lyfjafræðingar hafi sýnt að þessar skyldu lyfjafræðigreinar félagslyfjafræði og klínísk lyfjafræði eigi margt sameiginlegt og þurfi að vinna þétt saman til að auka möguleikana á framþróun fagsins.

Yfirskrift sameiginlegu ráðstefnunnar er „Practicing pharmacy under economic constraints - putting the patient in focus". Við lyfjafræðingar vinnum að því að sjúklingar fái þau lyf sem þeir þurfa, þrátt fyrir og í samræmi við miklar aðgerðir til þess að hagræða í heilbrigðiskerfinu.

 

Sjóðastjórn LFÍ vill koma því á framfæri til félagsmanna LFÍ, að hægt er að sækja um styrki til Vísindasjóðs, Fræðslusjóðs og Sjóðs um klíníska lyfjafræði. Næsti umsóknarfrestur er 15. september.

 

Hægt er að óska eftir að umsóknir í Vísindasjóð séu teknar fyrir á öðrum tímum og verður reynt að koma til móts við þær óskir.

 

Umsóknar- og áfangaskilaeyðublöð sem umsækjendur eru beðnir um að nota er hægt að finna á heimasíðu LFÍ (www.lfi.is ) eða hafið samband við skrifstofu LFÍ.

 

Minnt er á að þeir styrkþegar Vísindasjóðs og Sjóðs um klíníska lyfjafræði sem fengu samþykkta styrki á síðasta ári þurfa að skila grein inn í TUL. Styrkþegar Fræðslusjóðs eru minntir á að skila þarf inn áfangaskýrslu til sjóðastjórnar.

 

Kveðja,

sjóðastjórn LFÍ

22. ágúst kl. 14:00 opnar Urtagarður í Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Í garðinum er safn urta sem ýmist hafa gegnt hlutverki í lækningum eða verið nýttar til næringar og heilsubótar á tímabilinu 1760-1834.  Hluti plantnanna tilheyrir íslenskri flóru og hefur lækningamáttur þeirra lengi verið landsmönnum kunnur. Aðrar eru innfluttar en hafa verið ræktaðar í landinu um lengri eða skemmri tíma. Leiðsögn verður um garðinn kl. 17:00 sama dag.

 

Urtagarðurinn er stofnaður í minningu þriggja manna sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi.  Í ár eru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í embætti landlæknis árið 1760 og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands árið 1885. Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir. Björn Jónsson lyfsali var sá þriðji en hann annaðist nytja- og lækningajurtagarð í Nesi frá árinu 1768.