FIP þingið sem haldið var í Istanbul dagana 3. - 8. september síðastliðinn var það 69. í röðinni og var sótt af tæplega 3000 lyfjafræðingum, fólki sem starfar að lyfjafræðivísindum og rannsóknum, lyfjafræðinemum og öðrum gestum. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var: Responsibility for Patient Outcomes - are you ready?
Leitast var við að svara þeirri spurningu frá hinum ýmsu hliðum. Velt var upp spurningum eins og: Hvert er hlutverk lyfjafræðingsins sem hluti af heilbrigðiskerfinu? Eru lyfjafræðingar með þjálfun og reynslu sem þeir þurfa til þess að sinna því hlutverki? Er nám lyfjafræðingsins miðað við hlutverk hans? Hvert er hlutverk lyfjafræðinga í samstarfi heilbrigðisstétta? Haldin voru erindi um fyrirkomulag lyfjafræðináms og samstarfsverkefna jafnframt því að segja frá helstu sviðum þar sem aukin þekking kemur til með að hafa áhrif á lyfjameðferð í framtíðinni. Þessi upptalning er langt frá því að vera tæmandi og tekur fyrst og fremst mið af þeim erindum sem fulltrúar Íslands náðu að hlusta á meðan á þinginu stóð. Gerð verður nánari grein fyrir einstökum fyrirlestrum síðar.
Skrifstofa Lyfjafræðingafélags Íslands verður lokuð dagana milli jóla og nýárs en opnar aftur á nýju ári 2009, mánudaginn 5. janúar.
Gleðileg Jól
Gott og farsælt komandi ár
Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða
Kæru kollegar,
Ég skora á alla lyfjafræðinga að kynna sér upplýsingar um svínainflúensu á heimasíðu landlæknis: www.landlaeknir.is
Lyfjafræðingar eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og er hlutverk okkar meðal annars að miðla upplýsingum um lyf og heilbrigðismál.
Leggjum okkur fram við að fylgjast með nýjustu upplýsingum um svínainflúensu á hverjum tíma og miðla þeim á yfirvegaðan og skiljanlegan hátt til almennings og annarra heilbrigðisstétta. Við aðstæður sem þessar er mjög líklegt að fólk leiti til okkar, hvort heldur sem það tengist starfi okkar beint (Apótek) eða vegna þeirrar menntunar sem við búum yfir. Þá er gott að vera vel undirbúinn.
Kær kveðja,
Aðalheiður Pálmadóttir
formaður
Nýr forstöðumaður Rannsóknarstofnunar um lyfjamál
Í lok nóvember s.l. tók Dr. Ingunn Björnsdóttir lyfjafræðingur við starfi forstöðumanns Rannsóknarstofnunar um lyfjamál við Háskóla Íslands. Er stjórn RUL sönn ánægja að bjóða hana velkomna til starfa. Með Ingunni í forsvari fyrir stofnuninni sjáum við fram á þróttmikið starf hjá RUL á næstunni þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í landinu. Ýmis mikilvæg lyfjamálaverkefni bíða úrlausnar og nú er þörf sem aldrei fyrr á virkri símenntun lyfjafræðinga.
Ingunn tekur við starfinu af Rúnu Hauksdóttur Hvannberg sem hefur sem kunnugt er tekið við formennsku í Lyfjagreiðslunefnd auk annarra starfa fyrir Heilbrigðisráðuneytið. Einnig hverfur nú frá störfum verkefnastjóri RUL, Ragnhildur Þórðardóttir. Þakkar stjórn RUL þeim báðum fyrir vel unnin störf fyrir stofnunina og óskar þeim velfarnaðar.
Í gær, þann 18. nóvember 2008, var haldinn fyrsti vitundarvakningadagur um sýklalyf í Evrópu. Ætlunin er að halda árlega slíka vitundarvakningu. Athygli er vakin á mikilvægi sýklalyfja þegar þau eru rétt notuð til meðferðar á sýkingum en jafnframt er vakin athygli á áhættu sem fylgir rangri notkun þeirra.
Í ár er athyglinni sérstaklega beint að óþarfa notkun sýklalyfja.
Hér er um heilsuátak að ræða sem unnið er með Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) í náinni samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og marga aðra hagsmunaaðila.
Heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisstarfsfólk, frjáls félagasamtök, einstaklingar og fjölskyldur eru hvött til að taka þátt í þessu átaki með eigin frumkvæði og umræðum um ábyrga notkun sýklalyfja.
Sjá nánar á heimasíðu Landlæknis, www.landlaeknir.is