Lyfjafræðingafélagið hélt félagsfund að kvöldi 22. janúar, þar sem prófessor Anna Birna Almarsdóttir skýrði frá úttekt Rannsóknarstofnunar um lyfjamál á hvaða möguleikar væru varðandi upptöku þjónustugjalda í apótekum á Íslandi og Rob Heerdink frá Holandi sagði frá hollenskum rannsóknum á þunglyndislyfjameðferð.

Ríkarður Róbertsson var fundarstjóri.

Nokkuð mikið rok var úti þetta kvöld, og því fámennt og góðmennt í Lyfjafræðisafninu. Rokið var það mikið, að erfitt var að heyra allt sem fyrirlesararnir sögðu, þrátt fyrir að þeir brýndu raustina eins og þeir gátu.


Í gær, þann 18. nóvember 2008, var haldinn fyrsti vitundarvakningadagur um sýklalyf í Evrópu. Ætlunin er að halda árlega slíka vitundarvakningu. Athygli er vakin á mikilvægi sýklalyfja þegar þau eru rétt notuð til meðferðar á sýkingum en jafnframt er vakin athygli á áhættu sem fylgir rangri notkun þeirra.

Í ár er athyglinni sérstaklega beint að óþarfa notkun sýklalyfja.

Hér er um heilsuátak að ræða sem unnið er með Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) í náinni samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og marga aðra hagsmunaaðila.

Heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisstarfsfólk, frjáls félagasamtök, einstaklingar og fjölskyldur eru hvött til að taka þátt í þessu átaki með eigin frumkvæði og umræðum um ábyrga notkun sýklalyfja.

Sjá nánar á heimasíðu Landlæknis, www.landlaeknir.is

 

 

Skrifstofa Lyfjafræðingafélags Íslands verður lokuð dagana milli jóla og nýárs en opnar aftur á nýju ári 2009, mánudaginn 5. janúar.

 

Gleðileg Jól

Gott og farsælt komandi ár

Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða

 

Dagur lyfjafræðinnar var haldinn laugardaginn 25. október, og að þessu sinni sú nýbreytni að hefja dagskrá kl. 17, og hafa snæðing, smárétti og drykki, og skemmtiatriði í lok dagskrár. Dagurinn var haldinn á veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíðinni og hafði verið kynnt fyrirfram að sá staður væri rétt hjá Keiluhöllinni. Pistilskrifari ók því sem leið lá að Keiluhöllinni, en þegar þangað var komið vafðist svolítið fyrir að koma auga á staðinn. Sem betur fer rak pistilskrifari fljótlega augun í orðið Rúbín, ritað með glæsilegu rauðu letri, að því er virtist á klettavegginn, - og tók stefnuna þangað. Lýst var upp með útikertum að dyrunum, og gaf það góða tilfinningu fyrir því sem beið innan dyra. Nokkuð skuggsýnt var í anddyrinu, og gerði það stigann upp í salarkynnin enn glæsilegri og meira áberandi en ella. Stiginn var upplýstur, bæði með ljósum í sjálfum tröppunum og með einhvers konar ljósarönd á handriðinu. Áður en stefnan var tekin á stigann, fengu gestir bók að gjöf, frá Actavis, og fjallaði hún um Geðorðin 10. Pistilskrifari fetaði sig síðan varlega upp upplýstan stigann, ásamt tveimur sjúkrahúslyfjafræðingum sem hún hafði mætt í anddyrinu. Þegar upp var komið blasti við glæsilegur, en nokkuð framúrstefnulegur bar, og fjöldi hringborða með hvítum dúkum. Hátíðastemning, undir klettaveggnum, - en hann var þarna yfir og að nokkru leyti um kring, að því er virtist að mestu ómeðhöndlaður. Þrír skjáir voru í salnum, þannig að ekki reyndi eins á að fólk snéri rétt í sætinu, eins og oft vill verða þegar skjárinn er einungis einn. Þó kom í ljós, þegar dagskrá hófst, að ekki var alveg sama hvar maður sat, því að þótt skjáirnir virtust klónaðir, voru ræðumennirnir það ekki.

Nýr forstöðumaður Rannsóknarstofnunar um lyfjamál

 

Í lok nóvember s.l. tók Dr. Ingunn Björnsdóttir lyfjafræðingur við starfi forstöðumanns Rannsóknarstofnunar um lyfjamál við Háskóla Íslands. Er stjórn RUL sönn ánægja að bjóða hana velkomna til starfa. Með Ingunni í forsvari fyrir stofnuninni sjáum við fram á þróttmikið starf hjá RUL á næstunni þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í landinu. Ýmis mikilvæg lyfjamálaverkefni bíða úrlausnar og nú er þörf sem aldrei fyrr á virkri símenntun lyfjafræðinga.

 

Ingunn tekur við starfinu af Rúnu Hauksdóttur Hvannberg sem hefur sem kunnugt er tekið við formennsku í Lyfjagreiðslunefnd auk annarra starfa fyrir Heilbrigðisráðuneytið. Einnig hverfur nú frá störfum verkefnastjóri RUL, Ragnhildur Þórðardóttir. Þakkar stjórn RUL þeim báðum fyrir vel unnin störf fyrir stofnunina og óskar þeim velfarnaðar.

Á Degi lyfjafræðinnar þann 25. október var ný heimasíða Lyfjafræðingafélags Íslands kynnt fyrir félagsmönnum. Hin nýja heimasíða er mun betri í meðhöndlun fyrir umsjónarmenn síðunnar en sú gamla og verður vonandi að auki mun betri að öðru leyti. Uppbygging síðunnar er með svipuðu sniði og þeirrar gömlu en þar er þó að finna nokkrar nýjungar sem félagsmenn eru hvattir til að kynna sér.

Eins og áður eru tölublöð TUL að finna á lokuðu svæði en að auki hafa fleiri atriði verið sett undir lokuð svæði síðunnar eins og fundargerðir stjórnar, myndir af viðburðum LFÍ, kjarasamningar og fleira. Nýjung er að Föstudagspistill framkvæmdastjóra verður einnig að finna á lokaða svæðinu ásamt spjallborði og upplýsingum um aðra félagsmenn. Hægt er að setja athugasemdir við myndir í myndaalbúmum og gefa þeim dóma. Eins og á gömlu síðunni geta félagsmenn nálgast upplýsingar um sumarhús sem félagið hefur yfir að ráða.

Mjög skemmtileg nýjung á síðunni er svæði þar sem birtast lyfjatengdar fréttir af fréttamiðlum á netinu eins og Morgunblaðinu, Vísi og RÚV. Þar er hægt að sjá 5 nýjustu fréttir af slíkum toga sem hafa birst á hinum ýmsu miðlum og innihalda leitarorð sem tengjast lyfjamarkaðinum. Með þessari nýjung verður síðan í stöðugri breytingu þannig að alltaf má vænta nýjunga þegar litið er við á vefsetrinu.

Eins og áður birtast tilkynningar um atburði og störf sem LFÍ hefur verið beðið um að auglýsa á heimasíðu sinni. Yfirlit yfir nýjustu færslur á síðunni birtast einnig á hægri hlið síðunnar. Forsíða nýjasta tölublaðs TUL birtis á forsíðu heimasíðunnar ásamt glefsum úr myndasafni. Til þess að skoða þessi atriði verður þó að skrá sig inn á lokaða svæði síðunnar.

Þeir sem nýta sér svokallaðar Fréttaveitur (RSS feeds) geta gerst áskrifendur að breytingum á nýju síðunni. Þeir sem það gera fá sjálfvirkt sendar nýjungar af heimasíðunni, sem getur verið gott þar sem viðkomandi fær þá nýjustu fréttir og breytingar sendar strax og missir þar af leiðandi ekki af neinu. Tölvupóstforritið Microsoft Outlook 2007 býður upp á þennan möguleika. Til þess að gerast áskrifandi að breytingum er smellt á litla appelsínugula merkið neðst vinstra megin á forsíðunni.

Upplýsingar um hvernig tengjast má lokaða svæðinu voru kynntar á Degi lyfjafræðinnar og verða sendar félagsmönnum í tölvupósti. Ef einhverjar spurningar vakna með síðuna eru félagsmenn beðnir um að hafa samband við skrifstofu LFÍ t.d. á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .  Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í könnuninni hér til vinstri á síðunni þar sem spurt er „Hvernig finnst þér nýja heimasíðan?“.