KJARASAMNINGUR

  MILLI

SAMTAKA ATVINNULÍFSINS

 OG

LYFJAFRÆÐINGAFÉLAGS ÍSLANDS

 

 VEGNA LYFJAFRAMLEIÐENDA

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                  GILDIR ÓTÍMABUNDIÐ

 

Efnisyfirlit Bls.

1. KAFLI Um kaup. 5

1.1.      Laun. 5

1.2.      Markaðslaun. 5

1.3.      Launakannanir 5

1.5.      Deilitölur 6

1.6.      Yfirvinnuálag. 7

1.7.      Útkall 7

1.8.      Reglur um kaupgreiðslur 7

1.9.      Ráðning. 7

2. KAFLI Um vinnutíma. 8

2.1.      Dagvinna. 8

2.2.      Yfirvinna. 8

2.3.      Helgidagar 8

2.4.      Lágmarkshvíld. 8

2.5.      Réttindi hlutavinnufólks. 10

3. KAFLI Um matar- og kaffitíma og ferðakostnað. 11

3.1.      Matar og kaffitímar í dagvinnu. 11

3.2.      Matar- og kaffitímar í yfirvinnu. 11

3.3.      Ferðakostnaður 11

4. KAFLI Um orlof 12

4.1.      Orlofsréttur 12

4.2.      Orlofstaka utan orlofstímabils. 12

4.3.      Orlofsauki 12

4.4.      Vetrarorlof 12

4.5.      Ákvörðun orlofstöku. 12

4.6.      Orlofslög. 12

4.7.      Fæðingarorlof 13

5. KAFLI Fyrirtækjaþáttur kjarasamninga. 14

5.1.      Markmið. 14

5.2.      Viðræðuheimild. 14

5.3.      Fulltrúar starfsmanna forsvar í viðræðum.. 14

5.4.      Upplýsingamiðlun. 15

5.5.      Heimil frávik. 15

5.6.      Endurgjald starfsmanna. 16

5.7.      Gildistaka, gildissvið og gildistími 17

5.8.      Áhrif fyrirtækjasamnings á ráðningarkjör 17

5.9.      Meðferð ágreinings. 17

6. KAFLI Um aðbúnað og hollustuhætti 19

6.1.      Aðbúnaður 19

7. KAFLI Um vinnuslys, slysatryggingar, atvinnusjúkdóma
og greiðslur launa í slysa- og veikindatilfellum.. 20

7.1.      Laun í veikindaforföllum.. 20

7.2.      Endurtekin veikindi 20

7.3.      Langtímaveikindi 20

7.4.      Launagreiðslur í vinnuslysa- eða atvinnusjúkdómatilfellum.. 21

7.5.      Læknisvottorð. 21

7.6.      Fæðingarorlof 21

7.7.      Veikindi barna og leyfi af óviðráðanlegum ástæðum.. 21

7.8.      Dánar-, slysa- og örorkutryggingar (gildir frá 1. júlí 2001) 22

7.9.      Ábyrgðartrygging. 23

8. KAFLI Vinnuföt og tryggingabætur. 24

8.1.      Vinnufatnaður 24

8.2.      Tryggingar og tjónabætur 24

9. kafli Um fæðingarorlofssjóð, orlofssjóð og lífeyrissjóð. 25

9.1.      Um fæðingarorlofs- og orlofssjóð. 25

9.2.      Lífeyrissjóður 25

9.3.      Viðbótarframlag til lífeyrissparnaðar 25

10. KAFLI Um menntun. 26

10.1.    Menntun. 26

11. KAFLI Félagsgjöld. 27

11.3.    Um innheimtu félagsgjalda. 27

12. KAFLI Um uppsagnarfrest og endurráðningu. 28

12.1.    Uppsagnarfrestur 28

12.2.    Uppsögn sérkjara. 28

12.3.    Framkvæmd uppsagna. 28

12.4.    Hópuppsagnir 28

13. KAFLI Um trúnaðarmenn. 29

13.1.    Val trúnaðarmanna. 29

14. KAFLI  Áunnin réttindi 30

14.1.    Áunnin réttindi 30

15. KAFLI Meðferð ágreiningsmála. 31

15.1.    Sáttanefnd. 31

16. KAFLI Gildistími 32

Bókanir og yfirlýsingar. 33

Bókun 2010. 33

Bókun um niðurfellingu á launatöxtum.. 33

Bókun um fæðingarorlofssjóð. 33

Yfirlýsing Actavis 2010. 33

 

 

1. KAFLI
Um kaup

1.1.        Laun

Launabreytingar 1. júní 2008

Föst laun lyfjafræðinga sem eru undir kr. 400.000 m.v. fullt starf við undirritun kjarasamningsins hækka um kr. 21.000 þann 1. júní 2008.

Föst laun lyfjafræðinga sem eru kr. 400.000 eða hærri m.v. fullt starf við undirritun samningsins hækka um 3,4% frá og með 1. júní 2008 fyrir þá lyfjafræðinga sem voru í starfi hjá sama vinnuveitenda þann 1. janúar 2008. Hafi lyfjafræðingur fengið að minnsta kosti 5,5% persónubundna launahækkun á tímabilinu 1. janúar 2008 til 1. júní 2008 tekur hann ekki hækkun skv. þessari málsgrein.

1.2.        Markaðslaun

Að öðru leyti byggja launakjör lyfjafræðinga, sem samningur þessi nær til á því sem um semst á markaði.

Starfsmenn og vinnuveitendur skulu semja um laun sín í milli.  Við ákvörðun launa skal m.a. litið til eðlis starfs, ábyrgðar, hæfni, viðbótarmenntunar og vinnutíma.  Taka skal sérstakt tillit til þess ef lyfjafræðingur ber faglega og stjórnunarlega ábyrgð. Gæta skal ákvæða jafnréttislaga við launaákvarðanir.

Mat á hugsanlegum breytingum á launakjörum skal fara fram einu sinni á ári hjá hverjum lyfjafræðingi fyrir sig.

1.3.        Launakannanir

Nefnd skipuð tveimur mönnum frá hvorum aðila, skal hafa umsjón með gerð launakönnunar, sem birt skal einu sinni á ári.  Nefndin getur samið við óháðan aðila um framkvæmd könnunarinnar og skal hafa eftirlit og umsjón með birtingu niðurstöðu. Tryggt skal, að ekki verði unnt að greina launa­greiðslur einstakra fyrirtækja eða laun einstaklinga út úr niðurstöðum könnunarinnar. Kostnaður af launakönnun skiptist jafnt milli aðila.

1.4.1.             Desemberuppbót

Desemberuppbót fyrir hvert almanaksár miðað við fullt starf er:

Á árinu 2008 kr. 44.100.

Á árinu 2009 kr. 45.600.

Uppbótin greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs.

Desemberuppbót innifelur orlof, er föst talar og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum. Áunna desemberuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

1.4.2.             Orlofsuppbót

Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1.maí til 30.apríl) miðað við fullt starf er:

Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2008 verði orlofsuppbót kr. 24.300.

Á orlofsárinu (1. maí til 30. apríl) sem hefst 1. maí 2009 er kr. 25.200, miðað við fullt starf.

Uppbótin greiðist fyrir 15. ágúst miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí. 

Orlofsuppbót innifelur orlof, er föst tala og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum. Áunna orlofsuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

1.4.3.             Desember- og orlofsuppbót frá 2010

Starfsmenn, aðrir en stjórnendur, fá greidda desember- og orlofsuppbót í samræmi við aðalkjarasamninga SA á almennum vinnumarkaði. Heimilt er í ráðningarsamningi að fella uppbætur inn í mánaðalaun starfsmanns eða semja um annan greiðsluhátt.

1.5.        Deilitölur

1.5.1. Deilitölur vegna tímakaups í dagvinnu

Dagvinnutímakaup hvers lyfjafræðings skal fundið með því að deila tölunni 164 í mánaðarlaun eða mánaðarlaun samkv. fastlaunasamningi eftir því sem við á.

1.5.2.             Deilitölur vegna dagkaups og orlofs

Dagkaup hvers starfsmanns skal fundið með því að deila tölunni 21,67 í mánaðarlaun eða mánaðarlaun samkv. fast­launasamningi eftir því sem við á.

1.6.        Yfirvinnuálag

Öll yfirvinna greiðist með tímakaupi sem nemur 1,0385% af föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu nema um annað sé samið milli vinnuveitanda og lyfjafræðings.

Öll vinna sem unnin er á stórhátíðum greiðist með tímakaupi sem nemur 1,375% af föstum mánaðarlaunum nema um annað sé samið milli vinnuveitanda og lyfjafræðings.

1.7.        Útkall

Þegar lyfjafræðingur er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi af vinnutíma skal greitt fyrir slíkt útkall minnst 3 klst. í yfirvinnu, annars eftir stundafjölda, verði vinnustundir fleiri. Þetta á ekki við hefjist reglulegur vinnutími hans innan tveggja klst. en þá skal greitt þar til reglulegur vinnutími hefst.

1.8.        Reglur um kaupgreiðslur

1.8.1.             Útborgun

Útborgun launa skal fara fram mánaðarlega fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun eru greidd fyrir. Beri þann dag upp á frídag skal borga út síðasta virka dag mánaðarins.

1.8.2.             Launaseðill

Lyfjafræðingur skal fá launaseðil við hverja útborgun þar sem greiðslan er sundurliðuð, svo sem í dagvinnu og yfirvinnu og unnar stundir í yfirvinnu greindar. Einnig verði allur frádráttur sundurliðaður.

1.8.3.             Greiðslutímabil yfirvinnu

Öll yfirvinna skal greidd eftir á í einu lagi fyrir hvern mánuð.

1.9.        Ráðning

Sé lyfjafræðingur ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar skal eigi síðar en tveim mánuðum eftir að starf hefst, gerður skriflegur ráðningarsamningur eða ráðning staðfest skriflega, þar sem laun og önnur ráðningarkjör eru tilgreind.

Við ráðningu skal lyfjafræðingur leggja fram heilbrigðisvottorð.

2. KAFLI
Um vinnutíma

2.1.        Dagvinna

Dagvinna lyfjafræðinga er 38 stundir á viku sem unnar eru frá mánudegi til föstudags á tímabilinu frá kl. 7:00 - kl. 18:00. Leitast skal við að daglegur vinnutími verði sem samfelldastur.

Mánaðarlegur dagvinnustundafjöldi skal reiknaður út fyrir hvern almanaksmánuð á grundvelli 38 stunda vinnuviku. Vinnuveitandi og lyfjafræðingur hafa heimild til samkomulags um vinnutíma og greiðslutilhögun innan ramma þessa samnings enda sé þess getið í ráðningarsamningi lyfja­fræðings.

2.2.        Yfirvinna

2.2.1.             Yfirvinna telst hver sú vinna sem fer fram eftir tilskilinn dagvinnutíma.

2.2.2.             Frí fyrir yfirvinnu

Heimilt er með samþykki lyfjafræðings að greiða fyrir störf sem unnin eru utan dagvinnutíma með fríum á dagvinnu­tímabili enda sé þá verðgildi unninna vinnutímaeininga þeirra er utan dagvinnu falla lagðar til grundvallar.

2.3.        Helgidagar

2.3.1.             Frídagar

Frídagar eru allir helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsta, 1. maí og frídagur verslunarmanna. Enn­fremur aðfangadagur jóla og gamlársdagur.

2.3.1.             Stórhátíðardagar

Stórhátíðardagar eru nýársdagur, föstudagurinn langi, páska­dagur, hvítasunnudagur, 17. júní, jóladagur, aðfangadagur og gamlárs­dagur.

2.4.        Lágmarkshvíld

2.4.1.             Daglegur hvíldartími

Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Verði því við komið skal dagleg hvíld ná til tímabilsins milli kl. 23:00 til kl. 06:00.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 klst.

2.4.2.             Frávik og frítökuréttur

Við sérstakar aðstæður, þegar bjarga þarf verðmætum, má lengja vinnulotu í allt að 16 klst. og skal þá undantekningar­laust veita 11 klst. hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra daglauna.

Í þeim tilvikum að sérstakar aðstæður gera það óhjákvæmi­legt að víkja frá daglegum hvíldartíma gildir eftirfarandi: Séu starfsmenn sérstaklega beðnir um að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld er náð er heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út ½ klst. (dagvinna) af frítökuréttindum óski starfsmaður þess. Í öllum tilfellum er óheimilt að skerða átta klst. samfellda hvíld.

Vinni starfsmaður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags skal fara með það á sama hátt. Komi starfsmaður til vinnu á frídegi eða helgi greiðist yfirvinnukaup fyrir unninn tíma án frekari aukagreiðslna af þessum sökum.

Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst.

Uppsafnaður frítökuréttur skv. framangreindu skal koma fram á launaseðli og veittur í hálfum og heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmenn, enda sé uppsafnaður frítökuréttur a.m.k. fjórar klst. Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma.

2.4.3.             Vikulegur frídagur

Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi.

2.4.4.             Frestun á vikulegum frídegi

Að svo miklu leyti sem því verður við komið, skal vikulegur frídagur vera á sunnudegi og að svo miklu leyti sem því verður við komið skulu allir þeir sem starfa hjá sama fyrirtæki eða á sama fasta vinnustað fá frí á þeim degi. Þó má fyrirtæki með samkomulagi við starfsmenn sína fresta vikulegum frí­degi þar sem sérstakar aðstæður gera slík frávik nauðsynleg. Sé sérstök þörf á að skipuleggja vinnu þannig að vikulegum frídegi sé frestað skal um það gerður kjarasamningur. Má þá haga töku frídaga þannig að teknir séu tveir frídagar saman aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Falli frídagar aftur á móti á virka daga vegna ófyrirséðra orsaka skerðir það ekki rétt starfsmanna til fastra launa og vaktaálags.

2.4.5.             Hlé

Lyfjafræðingur á rétt á a.m.k. 15 mínútna hléi ef daglegur vinnutími hans er lengri en sex klst. Kaffi- og matarhlé teljast hlé í þessu sambandi.

Hvað varðar gildissvið, hvíldartíma, vinnuhlé og fleira vísast til samnings ASÍ og VSÍ frá 30. desember 1996 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.

2.5.        Réttindi hlutavinnufólks

Lyfjafræðingar sem ráðnir eru til starfa hluta úr degi og vinna reglubundinn vinnutíma skulu taka hlutfallslega mánaðarlaun miðað við vinnutíma lyfjafræðinga í fullu starfi.

Lyfjafræðingar sem vinna reglubundið hluta úr degi hjá sama vinnuveitanda skulu njóta hlutfallslega sama réttar um greiðslur fyrir samningsbundna frídaga, veikinda- og slysa­daga og þeir sem vinna fullan vinnudag og skulu greiðslur miðaðar við venjulegan vinnutíma lyfjafræðinga.

3. KAFLI
Um matar- og kaffitíma og ferðakostnað

3.1.        Matar og kaffitímar í dagvinnu

3.1.1.             Matartímar

Matartími á dagvinnutímabilinu skal vera 1 klst. á tímabilinu frá kl. 11:30 til kl. 14:30 og telst hann ekki til vinnutíma. Þeir einir eiga rétt á matarhléi sem vinna fimm klst. eða meira á dag og hefja störf meira en einni klst. fyrir upphaf hádegis­verðartíma.

Heimilt er að stytta og lengja matartíma með gagnkvæmu samkomulagi aðila.

3.1.2.             Kaffitímar

Á venjulegum vinnudegi skal vera einn kaffitími samtals 15 mínútur og telst hann til vinnutíma.

3.2.        Matar- og kaffitímar í yfirvinnu

3.2.1.             Kvöldmatartími

Standi vinna fram yfir kl. 19.00 skal veita 1 klst. neysluhlé.  Sé neysluhléið unnið eða hluti af því greiðist unninn tími til viðbótar á yfirvinnutíma.

3.2.2.             Matar- og kaffitímar á helgidögum

Með matar- og kaffitíma í helgidagavinnu skal fara eftir sömu reglu og um virka daga.

3.3.        Ferðakostnaður

Þegar lyfjafræðingur er sendur til starfa á vegum vinnu­veitanda utan umsamins fasts vinnusvæðis skal auk launa greiða honum útlagðan kostnað.

Noti lyfjafræðingur eigin bifreið við starf skal greitt fyrir það samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar um kílómetra­gjald hafi ekki verið samið um annað.

Sé ekki um annað samið skal á ferðalögum greiða fargjald og dagpeninga skv. reglum um slíkar greiðslur til opinberra starfsmanna.

4. KAFLI
Um orlof

4.1.        Orlofsréttur

Lágmarksorlof skal vera 24 virkir dagar. Orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem er fyrir dagvinnu eða yfirvinnu.

Lyfjafræðingur sem starfað hefur skemur en eitt ár skal fá þriggja daga orlof að viðbættum tveim dögum fyrir hvern mánuð sem hann hefur verið í starfi.

Við útreikning orlofs skal nota deilitöluna 21,67 (laugardagar ekki meðtaldir). Fimm fyrstu laugardagar teljast ekki til orlofs.

4.2.        Orlofstaka utan orlofstímabils

Þeir lyfjafræðingar sem samkvæmt ósk vinnuveitanda fá ekki sumarfrí á tímabilinu frá 2. maí til 30. september skulu fá 25% lengingu á þann hluta orlofs sem veitt er utan ofangreinds tíma.

4.3.        Orlofsauki

Lyfjafræðingur sem stundað hefur lyfjafræðistörf í 10 ár skal hafa þriggja daga orlof að auki og skulu orlofslaun þá vera 11,59% og eftir 15 ára starf sex vinnudaga og skulu orlofslaun þá vera 13,04%.

4.4.        Vetrarorlof

Eftir 10 ára starf skal veita þriggja vinnudaga vetrarorlof og sex vinnudaga eftir 15 ára starf.

4.5.        Ákvörðun orlofstöku

Atvinnurekandi ákveður í samráði við lyfjafræðing hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum lyfjafræðingsins um hvenær orlof skuli veitt að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar.

4.6.        Orlofslög

Að öðru leyti fer um orlof skv. lögum um orlof nr. 30/1987.

4.7.        Fæðingarorlof

Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna fæðingarorlofs allt að sex mánuðum til starfstíma við mat á rétti til aukins orlofs samkvæmt kjarasamningum, veikindaréttar og uppsagnarfrests.

5. KAFLI
Fyrirtækjaþáttur kjarasamninga

5.1.        Markmið

Markmið fyrirtækjaþáttar kjarasamnings er að efla samstarf starfsfólks og stjórnenda á vinnustað með það fyrir augum að skapa forsendur fyrir bættum kjörum starfsfólks með aukinni framleiðni.

Markmiðið er að þróa kjarasamninga þannig að þeir nýtist báðum aðilum til aukins ávinnings. M.a. er stefnt að styttri vinnutíma með sömu eða meiri framleiðslu. Við það skal ávallt miðað að skilgreindur ávinningur skiptist milli starfsmanna og fyrirtækis eftir skýrum forsendum.

5.2.        Viðræðuheimild

Að jafnaði taki fyrirtækjaþáttur til allra starfsmanna sem kjarasamningar hlutaðeigandi félaga taka til. Heimilt er þó að gera sérstaka samninga á einstökum afmörkuðum vinnu­stöðum sé um það samkomulag.

Viðræður um fyrirtækjaþátt fara fram undir friðarskyldu almennra kjarasamninga og skulu teknar upp með samkomu­lagi beggja aðila. Þá komi skriflega fram til hverra samn­ingnum sé ætlað að ná.

Þegar viðræður hafa verið ákveðnar ber að tilkynna það Lyfjafræðingarfélag Íslands og SA. Rétt er báðum aðilum, starfsmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækis að leita ráð­gjafar hjá samningsaðilum. Þeir geta í sameiningu ákveðið að kalla hvor sinn fulltrúa til ráðuneytis við samningsgerð. Náist ekki samkomulag um fyrirtækjaðátt innan þriggja mánaða getur hvor um sig án samráðs kallað ráðgjafa til þátttöku í viðræðunum.

5.3.        Fulltrúar starfsmanna
forsvar í viðræðum

Trúnaðarmenn stéttarfélags skulu vera í forsvari fyrir starfsmenn í viðræðum við stjórnendur fyrirtækisins. Trúnað­armanni skal heimilt að láta fara fram kosningu um tvo til fimm menn til viðbótar í samninganefnd eftir fjölda starfs­manna og mynda þeir þá sameiginlega samninganefnd.

Trúnaðarmanni og kjörnum fulltrúum í samninganefnd skal tryggður eðlilegur tími til að sinna undirbúningi og samningsgerð í vinnutíma. Ennfremur skulu þeir njóta sérstakrar verndar í starfi og óheimilt að láta þá gjalda starfa sinna í samninganefnd. Þannig er óheimilt að segja þeim upp störfum vegna starfa þeirra í samninganefnd.

Á vinnustöðum þar sem trúnaðarmenn eru í tveimur stéttarfélögum eða fleiri skulu þeir koma sameiginlega fram fyrir hönd starfsmanna í þeim tilvikum að fyrirtækjasamning­urinn hafi áhrif á stöðu þeirra. Við þessar aðstæður skal þess gætt að fulltrúi fyrir allar hlutaðeigandi starfsgreinar taki þátt í viðræðum og það eins þótt samninganefndin kunni að stækka af þeim sökum.

Þar sem trúnaðarmenn hafa ekki verið skipaðir, getur hlutaðeigandi stéttarfélag starfsmanna beitt sér fyrir kosningu samninganefndar.

5.4.        Upplýsingamiðlun

Áður en gengið er til gerðar fyrirtækjasamnings skulu stjórn­endur upplýsa trúnaðarmenn og aðra í samninganefnd um afkomu, framtíðarhorfur og starfsmannastefnu fyrirtækisins.

Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum um launagreiðslur á þeim vinnustað sem hann er fulltrúi fyrir skv. því sem hér segir: "Séu hlutaðeigandi starfsmenn 10 eða fleiri skal upplýsa um meðaltal dagvinnulauna og heildarlaun. Ef starfsmenn eru fleiri en 20 getur hann óskað eftir dreifingu framangreindra upplýsinga eftir fjórðungum. Jafnframt skal upplýst um vinnutíma hlutaðeigandi starfsmanna.

Á gildistíma fyrirtækjasamnings skulu trúnaðarmenn upplýstir um framangreind atriði og áherslur í rekstri tvisvar á ári. Þeir skulu gæta þagmælsku um þessar upplýsingar að því marki sem þær eru ekki til opinberrar umfjöllunar.

5.5.        Heimil frávik

Heimilt er með samkomulagi í fyrirtæki, milli starfsmanna og fyrirtækis að aðlaga ákvæði samningsins þörfum vinnu­staðarins með frávikum varðandi eftirgreinda efnisþætti, enda náist samkomulag um endurgjald starfsmanna:

a)   Fjögurra daga vinnuvika. Heimilt er að ljúka fullum vikulegum vinnuskilum dagvinnu á 4 virkum dögum þegar lög eða aðrir samningar hamla því ekki.

b)   Vaktavinna. heimilt er að semja um að taka upp vaktavinnu með minnst mánaðarfyrirvara. Vaktatímabil standi ekki skemur en einn mánuð í senn.

c)   Yfirvinnuálag í dagvinnugrunn. Heimilt er að færa hluta yfirvinnuálags í dagvinnugrunn.

d)   Orlof fyrir yfirvinnu. Heimilt er að semja um að safna saman yfirvinnutímum og taka í stað þeirra orlof í jafn margar klukkustundir á virkum dögum utan háannatíma fyrirtækisins. Yfirvinnutímarnir koma til uppsöfnunar og greiðast síðar í dagvinnu en yfirvinnuálagið er greitt út.

e)   Neysluhlé: Heimilt er að semja um annað fyrirkomulag neysluhléa en greinir í aðalkjarasamningi.

f)    Orlof. Heimilt er að ráðstafa hluta orlofs til að draga úr starfsemi eða loka á tilteknum dögum utan annatíma fyrirtækis.

g)    Afkastahvetjandi launakerfi. Heimilt er að þróa afkasta­hvetjandi launakerfi án formlegra vinnurannsókna þar sem það þykir henta að mati beggja aðila.

h)    Tilfærsla fimmtudagsfrídaga. Heimilt er að semja svo um á vinnustað að samningsbundið frí vegna uppstigningar­dags og sumardagsins fyrsta, sem báðir eru ávallt á fimmtudögum, sé flutt á annan virkan dag, t.d. föstudag eða mánudag, eða tengt annarri frítöku starfsmanna. Ákvörðun um nýjan frídag eða fyrirkomulag frítöku nær til allra hlutaðeigandi starfsmanna og ræðst af vali meirihlutans. Eru þá greidd sömu laun þessa daga og aðra virka daga og starfsmenn halda dagvinnulaunum sínum þegar frí er tekið á hinum nýju frídögum. Ef starfsmenn eru sérstaklega beðnir um að vinna á nýju frídögunum er greitt yfirvinnukaup auk dagvinnulauna, nema vakta­ákvæði kjarasamninga kveði á um annað. Hafi frídagur ekki verið tekinn við starfslok skal við uppgjör launa greiða hann með 8 dagvinnustundum, m.v. fullt starf.

Frávik frá almennum reglum kjarasamningsins umfram ofangreind mörk eru því aðeins heimil að fyrir liggi samþykki viðkomandi stéttarfélags og samtaka vinnuveitenda.

5.6.        Endurgjald starfsmanna

Takist samkomulag um aðlögun ákvæða kjarasamnings að þörfum fyrirtækis eða önnur frávik frá vinnuskipulagi, sem samkomulag hefur verið gert um, skal jafnframt samið um hlutdeild starfsmanna í þeim ávinningi sem fyrirtækið hefur af breytingum.

Hlutur starfsmanna getur komið fram í fækkun vinnustunda án tilsvarandi skerðingar á tekjum, greiðslur fastrar upphæðar á mánuði eða ársfjórðungi, hæfnisálagi, prósentuálagi á laun eða fastri krónutölu á tímakaup eða með öðrum hætti, allt eftir því hvernig um semst. Í samningnum skal þó koma skýrt fram í hverju ávinningur fyrirtækis felst svo og endurgjald til starfsmanna. Hvort tveggja er frávik frá kjarasamningi og getur fallið niður við uppsögn skv. gr. 5.7.

5.7.        Gildistaka, gildissvið og gildistími

Samkomulag um fyrirtækjaþátt skal vera skriflegt og skal það borið undir alla þá sem samkomulaginu er ætlað að taka til í leynilegri atkvæðagreiðslu sem hlutaðeigandi samninganefnd starfsmanna stendur fyrir. Samkomulag telst samþykkt ef það fær stuðning meirihluta greiddra atkvæða. Hlutaðeigandi stéttarfélag skal ganga úr skugga um að umsamin frávik og endurgjald fyrir þau, heildstætt metið, standist ákvæði laga og kjarasamninga um lágmarkskjör. Hafi ekki komið tilkynning um annað innan fjögurra vikna telst samningurinn samþykktur af beggja hálfu.

Heimilt er að láta fyrirtækjasamning gilda tímabundið til reynslu í allt að 3 mánuði og ganga þá endanlega frá efni hans í ljósi reynslunnar. Annars skal gildistími ótímabundinn. Að ári liðnu getur hvor aðili farið fram á endurskoðun. Náist ekki samkomulag um breytingar innan tveggja mánaða getur hvor aðili sagt fyrirtækjasamningi lausum með sex mánaða fyrirvara m.v. mánaðamót. Að þeim tíma liðnum fellur hvort tveggja niður, umsamdar breytingar og hlutdeild starfsmanna í ávinningi. Til að uppsögn sé bindandi þarf hún að hljóta stuðning meirihluta hlutaðeigandi starfsmanna í sams konar atkvæðagreiðslu og viðhöfð var við gildistöku samningsins. Segi vinnuveitandi upp fyrirtækjaþætti samnings skulu launahækkanir honum tengdar þó aðeins ganga til baka í þeim mæli sem nemur þeim kostnaðarauka sem leiðir af upptöku fyrri samningsákvæða.

5.8.        Áhrif fyrirtækjasamnings á ráðningarkjör

Breytingar á ráðningarkjörum sem leiða kunna af fyrirtækjas­amningi eru bindandi fyrir alla hlutaðeigandi starfsmenn hafi þeir ekki mótmælt formlega gerð samningsins við stjórnendur fyrirtækis og samninganefnd starfsmanna áður en til atkvæða­greiðslu kom.

Ákvæði fyrirtækjasamnings gilda jafnt um þá starfsmenn sem við störf eru þegar samningur er samþykktur skv. ákvæðum þessa kafla sem og þá sem síðar ráðast til starfa, enda hafi þeim verið kynnt efni hans við ráðningu.

5.9.        Meðferð ágreinings

Komi upp ágreiningur innan fyrirtækis um skilning eða framkvæmd fyrirtækjasamnings og ekki tekst að leysa hann með viðræðum á milli aðila á vinnustað er starfsmönnum rétt að leita aðstoðar hlutaðeigandi stéttarfélags eða fela því málið til úrlausnar.

Náist ekki samkomulag um mat á áhrifum uppsagnar skv. lokamálsgrein 11.7 getur hvor aðili skotið honum til úrskurðar óháðs aðila. 65% kostnaðar greiðist af fyrirtæki og 35% af starfsmönnum.

6. KAFLI
Um aðbúnað og hollustuhætti

6.1.        Aðbúnaður

Varðandi ákvæði um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er vísað í lög þess efnis nr. 46/1980.

7. KAFLI
Um vinnuslys, slysatryggingar, atvinnusjúkdóma og greiðslur launa í slysa- og veikindatilfellum

7.1.        Laun í veikindaforföllum

7.1.1.             Lyfjafræðingur skal halda fullum launum svo lengi sem veikindadagar hans verða eigi fleiri en 60 á 12 mánuðum. Ef þeir verða fleiri, lækka launin um helming þann tíma sem umfram er. Þegar lyfjafræðingur hefur verið fjarverandi í 120 daga á 12 mánuðum fellur launagreiðsla niður.

7.1.2.             Fyrir lyfjafræðinga sem gegnt hafa lyfjafræðistörfum í 10 ár lengist 60 daga tímabilið í 90 daga, og 120 daga tímabilið í 180 daga.

7.1.3.             Eftir 15 ára starfsaldur lengist tíminn á sama hátt í 120 daga og 240 daga.

7.1.4.             Lyfjafræðingur sem gegnt hefur lyfjafræðistörfum í 20 ár eða lengur á rétt til fullra launa í 240 veikindadaga á 12 mánuðum, en þá fellur launagreiðsla niður.

7.1.5.             Lyfjafræðingar er verið hafa skemur en 6 mánuði í starfi eiga rétt til óskertra launa í 30 daga og hálfra launa í 30 daga.

7.2.        Endurtekin veikindi

Nú hefur lyfjafræðingur verið tvisvar sinnum frá störfum vegna veikinda með fullum launum þann dagafjölda er hann nýtur óskertra launa og skerðast þá um helming hlunnindi þau er hann á samkvæmt ákvæðum um greiðslur í veikinda­forföllum.

7.3.        Langtímaveikindi

7.3.1.             Lyfjafræðingur sem verið hefur veikur í einn mánuð eða lengur má ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi. Krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi vinnuveitanda.

7.3.2.             Veita má lyfjafræðingi lausn frá starfi vegna heilsubrests ef hann hefur verið frá vinnu vegna veikinda tvöfaldan þann tíma er hann átti rétt til að halda launum í fjarveru sinni samkvæmt 1. mgr. Þetta gildir þó eigi ef læknir vottar að líkur séu til fulls bata á næsta misseri, enda sé lyfjafræðingi þá veitt lausn að liðnu því misseri ef hann er þá enn óvinnufær. Ekki skulu framangreindar reglur um veikindaforföll verða því til fyrir­stöðu að lyfjafræðingi verði veitt lausn frá störfum vegna vanheilsu er hann æskir þess, ef hann samkvæmt læknis­vottorði er orðinn varanlega ófær að gegna starfi sínu vegna vanheilsu.

7.4.        Launagreiðslur í vinnuslysa- eða atvinnusjúkdómatilfellum

7.4.1.             Í hverju vinnuslysa- eða atvinnusjúkdómatilfelli greiðir vinnuveitandi laun fyrir dagvinnu í allt að þrjá mánuði, enda gangi dagpeningar frá tryggingastofnun og/eða almanna­tryggingum eða sjúkrasamlögum hverju nafni sem nefnast til vinnuveitanda. Ákvæði þetta skal á engan hátt rýra frekari rétt launþega sem hann kann að eiga samkvæmt lögum.

7.4.2.             Við vinnuslys kosti vinnuveitandi flutning hins slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og endurgreiði honum eðlilegan útlagðan sjúkrakostnað í allt að 4 vikur í hverju tilfelli, annan en þann sem sjúkrasamlag og/eða almannatryggingar greiða.

7.5.        Læknisvottorð

7.5.1.             Ef lyfjafræðingur veikist og getur af þeim sökum eigi sótt vinnu, skal hann þegar tilkynna það yfirboðara sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist. Krefjast má vottorðs frá trúnaðarlækni vinnuveitanda.

7.5.2.             Vinnuveitandi greiðir læknisvottorð sé framangreindum skil­yrðum fullnægt.

7.6.        Fæðingarorlof

Um fæðingarorlof lyfjafræðinga svo og greiðslur til þeirra fer eftir lögum um fæðingarorlof nr. 95/2000 svo og eftir úthlutunarreglum fæðingarorlofssjóðs lyfjafræðinga.

Tilkynna skal vinnuveitanda um töku væntanlegs fæðingar­orlofs með þriggja mánaða fyrirvara.

7.7.        Veikindi barna og leyfi af óviðráðanlegum ástæðum

7.7.1.             Foreldri skal, eftir fyrsta starfsmánuð, heimilt að verja samtals 7 vinnudögum á hverju 12 mánaða tímabili, til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið, og halda þá dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi þar sem það á við. Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda er foreldrum með sama hætti heimilt að verja samtals 10 vinnudögum til aðhlynningar börnum sínum undir 13 ára aldri.

7.7.2.             Starfsmaður á rétt á leyfi frá störfum þegar um óviðráðan­legar (force majeure) og brýnar fjölskylduástæður er að ræða vegna sjúkdóms eða slyss sem krefjast tafarlausrar nærveru starfsmanns.

7.7.3.             Starfsmaður á ekki rétt á launum frá atvinnurekanda í framangreindum tilfellum, sbr. þó ákvæði gr. 7.7.1.

7.8.        Dánar-, slysa- og örorkutryggingar (gildir frá 1. júlí 2001)

7.8.1. Tryggingaskylda

Skylt er vinnuveitanda að tryggja lyfjafræðinga þá sem samn­ingur þessi nær til fyrir dauða eða varanlegri örorku af völdum slyss sem hér segir.

7.8.2. Dánarslysabætur verða:

1.   Ef hinn látni var ógiftur og lætur ekki eftir sig barn og hefur ekki séð fyrir öldruðu foreldri 67 ára eða eldri kr. 642.527.

2.   Ef hinn látni var ógiftur, en lætur eftir sig barn( börn) undir 18 ára aldri og/eða hefur sannanlega séð fyrir foreldri eða foreldrum 67 ára og eldri kr. 4.008.077.

3.   Ef hinn látni er í hjúskap, skulu bætur til maka vera kr. 5.507.376. Hafi lyfjafræðingur ekki verið í hjúskap en verið í óvígðri sambúð sem að öðru leyti megi jafna til hjúskapar skal sambúðaraðili eiga rétt til bóta eins og um hjúskap væri að ræða enda hafi sambúðaraðili sannalega haldið heimili með hinum látna um árabil, þó eigi skemur en 2 ár fyrir andlát hans.

4.   Ef hinn látni lætur eftir sig barn (kjörbarn, fósturbarn) innan 18 ára aldurs fyrir hvert barn kr. 673.193. Sama rétt til bóta hefur barn (kjörbarn, fósturbarn) hins látna á aldrinum 18-25 ára, er stundar nám á framhaldsskóla- eða háskólastigi í a.m.k. 6 mánuði ársins.

Bætur greiðast aðeins samkvæmt einum af töluliðum nr. 1, 2 og 3. Til viðbótar með töluliðum nr. 2 og 3 geta komið bætur samkvæmt tölulið nr. 4.

7.8.3.             Rétthafar dánarbóta eru

1.   Lögerfingar

2.   Viðkomandi aðilar að jöfnu

3.   Eftirlifandi maki eða sambúðaraðili

4.   Viðkomandi börn, en greiðist til eftirlifandi maka ef hann er annað foreldri, ella til skiptaráðanda og/eða fjárhalds­manns.

7.8.4.             Bætur vegna varanlegrar örorku

Bætur vegna varanlegrar örorku greiðast í hlutfalli við vátryggingarfjárhæðina kr. 9.790.822 þó þannig að hvert örorkustig frá 25-50% verkar tvöfalt og örorkustig frá 50-100% verkar þrefalt.

7.8.5.             Endurskoðun tryggingafjárhæða

Tryggingafjárhæðir verði endurskoðaðar samkvæmt vinnu­reglu tryggingarfélaga.

7.8.6.             Hagstæðari tryggingaréttur

Ákvæði þessi valda í engu skerðingu á áður umsömdum hagstæðari tryggingarétti launþega.

7.8.7.             Gildistími tryggingar

Tryggingin tekur gildi um leið og tryggingaskyldur launþegi hefur störf (kemur á launaskrá), en fellur úr gildi um leið og hann hættir störfum (fellur af launaskrá).

Tryggingin gildir allan sólarhringinn.

7.8.8.             Skilmálar

Skilmálar séu almennir skilmálar sem í gildi eru fyrir atvinnu­tryggingar launþegar hjá Sambandi íslenskra tryggingafélaga.

7.8.9.             Starfsmaður missir eigi rétt sinn til bóta samkvæmt þessari tryggingu þó hann sé tryggður annars staðar. Undanskildar eru þó ferðaslysatryggingar er atvinnurekandi kaupir vegna starfsmanna sinna.

7.8.10.            Frádráttur slysabóta og dagpeninga við bótaskyldu

Verði vinnuveitandi skaðabótaskyldur gagnvart launþega, sem slysatryggður er samkvæmt samningi þessum skulu slysa­bætur, sem greiddar kunna að verða til launþega samkvæmt ákvæðum samnings þessa koma að fullu til frádráttar þeim skaðabótum, er vinnuveitanda kann að verða gert að greiða. Dagpeningar greiðist til vinnuveitanda meðan kaupgreiðsla varir samkvæmt samningi.

7.9.        Ábyrgðartrygging

Lyfjafræðingar skulu ábyrgðartryggðir í starfi.

8. KAFLI
Vinnuföt og tryggingabætur

8.1.        Vinnufatnaður

Vinnuveitendur leggi lyfjafræðingum til vinnuskó og vinnu­fatnað (sloppa) sem sé eign vinnuveitanda.

8.2.        Tryggingar og tjónabætur

Verði lyfjafræðingur fyrir tjóni á algengum nauðsynlegum fatnaði og munum við vinnu svo sem úrum og gleraugum o.s.frv. skal það bætt skv. mati. Slíkt tjón verði einungis bætt ef það verður vegna óhappa á vinnustað. Eigi skal bæta slíkt tjón ef það verður vegna gáleysis eða hirðuleysis lyfja­fræðings.

9. kafli
Um fæðingarorlofssjóð, orlofssjóð og lífeyrissjóð

9.1.        Um fæðingarorlofs- og orlofssjóð

Vinnuveitandi greiðir 1% af mánaðarlaunum lyfjafræðinga í orlofssjóð lyfjafræðinga og renna 0,75% í fæðingarorlofssjóð og 0,25% í orlofsheimilasjóð. Samningsaðilar eru sammála um að Lyfjafræðingafélag Íslands annist innheimtu gjalds þessa.

9.2.        Lífeyrissjóður

Vinnuveitendur greiða sem tillag til lífeyrissjóðs eða sjóða er lyfjafræðingur ákveður 6% af heildarlaunum hans og halda eftir 4% af launum til greiðslu tillags hlutaðeigandi í lífeyris­sjóðinn.

Hækkað framlag í lífeyrissjóði

Frá 1. janúar 2005 hækkar framlag atvinnurekenda í sam­tryggingarlífeyrissjóð í 7,0% og á sama tíma fellur niður skylda til að greiða 1,0% fast í séreignasjóð óháð framlagi starfs­­manns. Frá 1. janúar 2007 hækkar iðgjald atvinnu­rekenda til samtryggingarlífeyrissjóðs í 8,0% samhliða 0,45% lækkun almenns tryggingagjalds.

9.3.        Viðbótarframlag til lífeyrissparnaðar

Í þeim tilvikum sem lyfjafræðingur leggur til viðbótarframlag í séreignarsjóð greiðir vinnuveitandi framlag á móti með eftirfarandi hætti:

Frá 1. janúar 2002 skal mótframlag vinnuveitenda nema 2% gegn 2% framlagi starfsmanns.

10. KAFLI
Um menntun

10.1.      Menntun

Vinnuveitandi fylgist með endurmenntunarþörf starfsmanna sinna. Lyfjafræðingur skal í samráði við vinnuveitanda hafa frumkvæði að því að finna námskeið og/eða ráðstefnur sem henta starfsemi í fyrirtækinu og starfi hans hjá því. Mat vinnu­veitanda ræður úrslitum um það hvaða námskeið eða ráðstefnur verða fyrir valinu.

Umrædd endurmenntun verði lyfjafræðingum í alla staði að kostnaðarlausu, og miðast við allt að 5 vikur á fjórum árum. Mun vinnuveitandi í samráði við lyfjafræðing ákveða hvar og hvenær endurmenntun fer fram.

11. KAFLI
Félagsgjöld

11.3.      Um innheimtu félagsgjalda

Óski Lyfjafræðingafélag Íslands eftir því að vinnuveitandi haldi félagsgjöldum lyfjafræðinga til LFÍ eftir af launum þeirra skal það gert.

12. KAFLI
Um uppsagnarfrest og endurráðningu

12.1.      Uppsagnarfrestur

12.1.1.            Uppsagnarfrestur á 1. starfsári

Starfsuppsögn skal af beggja hálfu vera ein vika á fyrstu þrem mánuðum sem er reynslutími. Að honum loknum skal upp­sagnarfrestur vera einn mánuður á næstu þremur mánuðum. Eftir sex mánaða starf skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir.

12.1.2.            Uppsagnarfrestur eftir fimm ára samfellt starf

Fyrir lyfjafræðing sem unnið hefur á sama vinnustað í alls fimm ár er gagnkvæmur uppsagnarfrestur sex mánuðir.

12.2.      Uppsögn sérkjara

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur sérkjara skal vera 3 mánuðir. Uppsögn skal vera skrifleg.

12.3.      Framkvæmd uppsagna

Að reynslutíma loknum skal uppsögn vera skrifleg og bundin við mánaðamót.

12.4.      Hópuppsagnir

Um hópuppsagnir gilda ákvæði laga nr. 63/2000.

13. KAFLI
Um trúnaðarmenn

13.1.      Val trúnaðarmanna

                     Lyfjafræðingum er heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað, þar sem starfa fleiri en 5 lyfjafræðingar. Að kosningu lokinni tilnefnir Lyfjafræðingafélag Íslands trúnaðarmanninn. Verði kosningu eigi við komið skal trúnaðar­maður tilnefndur af LFÍ. Trúnaðarmenn verði eigi kosnir eða tilnefndir til lengri tíma en tveggja ára í senn.

14. KAFLI
Áunnin réttindi

14.1.      Áunnin réttindi

                     Áunnin réttindi lyfjafræðinga skulu haldast við endurráðningu innan eins árs. Á sama hátt skulu áunnin réttindi taka gildi á ný eftir eins mánaðar starf ef endurráðning verður eftir meira en eitt ár, en innan þriggja ára. Lyfjafræðingur sem unnið hefur eitt ár hjá sama vinnuveitanda, skal á sama hátt njóta áunninna réttinda á ný eftir 3 mánaða starf, ef til endur­ráðningar kemur eftir meira en þriggja ára starfshlé en þó innan 5 ára.

                     Samningur þessi raskar ekki kjörum þeirra sem betri réttarstöðu njóta samkvæmt eldri samningum.

15. KAFLI
Meðferð ágreiningsmála

15.1.      Sáttanefnd

Rísi ágreiningur um túlkun á samningnum skal heimilt að vísa honum til meðferðar hjá sérstakri sáttanefnd, sem í sitja tveir menn frá hvorum samningsaðila. Niðurstöðu sáttanefndar getur hvor aðili um sig skotið til Félagsdóms innan 30 daga.

16. KAFLI
Gildistími

Gildistími og endurskoðun

Gildistími

Kjarasamningur þessi gildir frá 7. janúar 2010. Um endurnýjun og uppsögn samningsins fer skv. lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Endurskoðun

Lyfjafræðingafélagið getur óskað eftir viðræðum um endurskoðun kjarasamnings þessa, verði gerðar almennar breytingar á réttindum launamanna á almennum vinnumarkaði. Með sama hætti geta Samtök atvinnulífsins óskað eftir viðræðum um endurskoðun samningsins.

Bókanir og yfirlýsingar

 

Bókun 2010

Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. um endurskoðun eru aðilar sammála um að fara í gegnum kosti hreins markaðslaunakerfið vorið 2010, auk annarra atriða sem aðilar eru sammála um að ræða.

Reykjavík, 7. janúar 2010

Bókun um niðurfellingu á launatöxtum

Aðilar eru sammála um að niðurfelling á launatöxtum samhliða upptöku á markaðslaunum, sbr. 2. gr. samnings þessa, breyti ekki gildandi framkvæmd um einstaklingsbundna samninga um yfirvinnukaup og/eða stórhátíðarkaup.  Heimilt verður eftir sem áður í samningi milli lyfjafræðings og vinnuveitanda að færa hluta yfirvinnuálags í dagvinnugrunn.

Reykjavík, 3. maí 2000

Bókun um fæðingarorlofssjóð

Aðilar eru sammála um að á samningstímanum verði ákvæði um fæðingarorlofssjóð endurskoðuð í ljósi fyrirhugaðra lagabreytinga um lengd fæðingarorlofs og greiðslur í fæðingarorlofi.  Þar til endurskoðun er lokið greiði atvinnurekandi 0,25% viðbótarframlag af mánaðarlaunum til sjóðsins.  Samhliða skal fara fram endurskoðun á tryggingarákvæðum kjarasamnings er miði að því að hækka bótafjárhæðir án aukins kostnaðar.

Reykjavík, 3. maí 2000.

Yfirlýsing Actavis 2010

Vegna ákvæðis um ótímabundinn samning milli LFÍ og SA vegna lyfjaframleiðenda lýsir Actavis yfir eftirfarandi:

Hinn 1. nóvember 2009 munu laun lyfjafræðinga, sem hófu störf fyrir 1. september 2009, breytast svo:

Grunnhækkun launa er 3,5%. Frá grunnhækkun dregst önnur sú launahækkun sem starfsmaður hefur fengið frá 1. janúar 2009 til og með gildistöku samningsins. Frádráttur getur þó ekki orðið hærri en grunnhækkun. Við samanburð launa skal miða við föst viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast. 

Ákvæði þetta nær ekki til launamanna sem starfa í afkastatengdum launakerfum þar sem laun vegna frammistöðu eru meginhluti launa.

Desemberuppbót á árinu 2009 er kr. 45.600.

F.h. Actavis

_____________________________

Tilkynningar