Hverjir eiga rétt?

6 mánaða samfelldar greiðslur

Rétt í Starfsmenntunarsjóði Lyfjafræðingafélagsins eiga þeir lyfjafræðingar sem starfa hjá ríkinu og greitt hefur verið fyrir starfsmenntunarsjóðsframlag í samfellda 6 mánuði. Inngreiðslur í sjóðinn sem miða við 49% starfshlutfall eða minna veita rétt til hálfs styrks.

Rof á aðild sem rekja má til eftirtaldra tilvika skerðir ekki rétt sjóðsfélaga til úthlutunar:

Fæðingarorlof: Aðildarrof í fæðingarorlofi skerðir ekki möguleika sjóðsfélaga á úthlutun úr sjóðnum enda sé stéttarfélagsgjald greitt á orlofstímabili.

Atvinnuleysi: Við atvinnumissi halda sjóðsfélagar réttindum sínum í sjóðnum í allt að 12 mánuði.

Launalaust leyfi: Sjóðsfélagar halda réttindum sínum fyrstu 6 mánuði í launalausu leyfi.

Lok ráðningarsambands: Sjóðsaðild telst lokið við lok ráðningarsambands.

Hvað er styrkt?

Nám, námskeið, ráðstefnur og kynnisferðir

Sjóðurinn veitir styrki til sjóðsfélaga vegna náms og einstakra námskeiða, ráðstefna, málþinga og kynnisferða innan lands sem utan. Styrkhæf verkefni þurfa að jafnaði að varða fagsvið eða starf sjóðsfélaga.

Hámarksstyrkur er 100.000 kr. á tveggja ára tímabili, talið frá fyrsta greiðsludegi. Sjóðsfélagar í minna en hálfu starfi eiga rétt á hálfum styrk.

Stök námskeið

Sjóðurinn veitir styrki til þátttöku sjóðsfélaga í einstökum námskeiðum, innan lands sem utan, enda tengist þau fagsviði eða starfi. Eftirfarandi kostnaður er styrkhæfur:

Námskeiðsgjöld

Ferðakostnaður (flugfargjöld eða aksturskostnaður)

Gistikostnaður

Nám

Sjóðurinn styrkir sjóðsfélaga vegna skólagöngu þeirra, innan lands sem utan, enda tengist hún fagsviði eða starfi þeirra. Eftirfarandi kostnaður er styrkhæfur:

Skólagjöld

Ferðakostnaður (flugfargjöld eða aksturskostnaður)

Gistikostnaður

Símakostnaður vegna fjarnáms (að hámarki 10.000 kr. á önn)

Ráðstefnur og málþing

Starfsmenntunarsjóður veitir sjóðsfélögum styrk vegna þátttöku á ráðstefnum og málþingum, innan lands sem utan, enda tengist viðfangsefnið fagsviði eða starfi. Eftirfarandi kostnaður er styrkhæfur:

Ráðstefnugjöld

Ferðakostnaður (flugfargjöld eða aksturskostnaður)

Gistikostnaður

Ekki er greitt vegna ferða innan borga, fæðiskostnaðar eða launataps.

Kynnisferðir

Starfsmenntunarsjóður veitir sjóðsfélögum styrk vegna þátttöku í faglega skipulögðum heimsóknum eða kynnisferðum, innan lands sem utan, enda tengist viðfangsefnið fagsviði eða starfi. Eftirfarandi kostnaður er styrkhæfur:

Ferðakostnaður (flugfargjöld eða aksturskostnaður)

Gistikostnaður

Skipulögð dagskrá kynnisferða þarf að lágmarki að standa yfir í 6 klukkustundir eða eina dagstund. Dagskráin má dreifast á einn eða fleiri daga. Umsækjendur skulu skila endanlegri dagskrá vegna kynnisferðar til skrifstofu sjóðstjórnar í tíma áður en ferð er farin. Sjá nánar um kynnisferðir.

Önnur styrkhæf námskeið sem ekki tengjast fagsviði

Námskeið sem ætlað er að auka hæfni umsækjanda á sviði tölvutækni, tungumála og samskipta eru almennt styrkhæf þó þau tengist ekki beint starfi eða háskólamenntun umsækjanda.

Óstyrkhæfur kostnaður

Kostnaður vegna launataps, fæðiskostnaðar, ferða innan borga og sveitarfélaga, tómstundanámskeiða og námsgagna fæst ekki bættur úr sjóðnum, né heldur kostnaður sem greiddur er með vildarpunktum eða annars konar viðskiptavild.

Umsóknarferli

Umsóknum og fylgigögnum skal skilað rafrænt til sjóðsins á netfang sjóðstjórnar, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Umsóknum í sjóðinn skal skilað rafrænt samkvæmt umsóknareyðublaði sem hægt er að nálgast á heimasíðu Lyfjafræðingafélagsins. Stjórn sjóðsins kemur saman tvisvar á ári til að afgreiða umsóknir í sjóðinn.

Meðferð umsókna

Sjóðstjórn afgreiðir umsóknir samkvæmt úthlutunarreglum. Allir umsækjendur fá svarspóst þar sem fram kemur hvort umsóknin hefur verið samþykkt eða ekki og hvaða gögnum þurfi að skila til þess að unnt sé að greiða styrkinn út.

Fylgigögn

Fylgigögnum er skilað til sjóðsins í gegnum netfang sjóðstjórnarinnar. Síðasti skiladagur er 20. dag úthlutunarmánaðar. Upphæðir styrkja miðast við framlagða reikninga og þá er gerð krafa um að þeir séu sannanlega greiddir. Einungis eru veittir styrkir vegna reikninga sem eru í nafni umsækjanda. Sé sótt um styrk vegna skipulagðra kynnisferða þarf auk reikninga/greiðslukvittana að skila inn staðfestingu á þátttöku undirritaðri af fræðsluveitanda sem sýnir fram á að styrkurinn hafi verið nýttur til þeirra verka sem ætlast var til við úthlutun hans.

E-miðar frá flugfélögum og staðfestingar á bókunum teljast ekki fullnægjandi staðfesting á greiðslu.

Greiðsla styrkja

Starfsmenntunarsjóður Lyfjafræðinga hjá ríkinu greiðir út styrki 25. dag úthlutunarmánaðar eða næsta virka dag þar á eftir. Til að eiga rétt á útgreiðslu styrks þarf sjóðsfélagi að hafa skilað inn umsókn fyrir fyrsta dag úthlutunarmánaðar og tilskildum gögnum fyrir 20. dag mánaðarins. Sjóðstjórn áskilur sér rétt til sveigjanleika í greiðslu styrkja. Sjóðsfélagar bera sjálfir ábyrgð á því að skila inn tilskildum gögnum.

Ef styrkloforðs er ekki vitjað eða tilskilin gögn berast ekki sjóðnum innan sex mánaða frá dagsetningu á tilkynningu um styrkveitingu fellur loforðið niður.

Endurskoðun

Upphæðir og endurtekning útborgana verða endurskoðaðar að fjórum árum liðnum miðað við stöðu sjóðsins.

Sjóðstjórn

Í sjóðstjórn eru tveir lyfjafræðingar starfandi hjá ríkinu og einn fulltrúi frá ríkinu. Við úthlutun styrkjanna styðst stjórnin við hversu oft viðkomandi hefur fengið styrki úr sjóðnum og hversu mikið er eftir í sjóðnum. Ávallt skal vera jafn mikið í sjóðnum og skilar sér í hann árlega eða meira.

Samþykkt í atkvæðagreiðslu lyfjafræðinga sem starfa hjá ríkinu (póstkosning) 30. nóvember 2015